Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur hrint af stað stóru og viðamiklu átaksverkefni með það að markmiði að breyta viðhorfi fólks til snjalltækjanotkunar og snúa þannig við þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað vegna notkun snjalltækja í umferðinni.  Áberandi er orðið hversu mörgum þykir sjálfsagt að lesa og skrifa smáskilaboð, tölvupósta og jafnvel horfa á myndefni í snjalltæki sínu við akstur. Þetta hefur aukið slysahættu verulega í umferðinni og því mikilvægt að bregðast við.

Samkvæmt rannsóknum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum bendir allt til þess að nær 25% af öllum umferðarslysum má rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri. Þetta er því orðin ein mesta ógnin í umferðinni og mikilvægt að allir taki höndum saman.

Samstarf við fyrirtæki

Til þess að ná ofangreindum markmiðum viljum við fá í lið með okkur öflug fyrirtæki sem öll eiga það sameiginlegt að halda úti atvinnutækjum í umferðinni.

Í þessu samfélagsverkefni væri frábært að sjá atvinnubílstjóra taka virkan þátt og setja gott fordæmi fyrir aðra í umferðinni. Þetta er því kjörið tækifæri til þess að gera samkomulag við starfsfólk ykkar og vera þannig leiðandi í risastóru umferðaröryggisátaki.

  • Skrifa undir samfélagslega yfirlýsingu um þátttöku í verkefninu
  • Merkja bílaflotann á kostnað fyrirtækis
  • Gera samning við ykkar bílstjóra um að taka virkan þátt í verkefninu
  • Fræðsla til starfsmanna og bílstjóra fyrirtækis

Boðið verður upp á fyrirlestur fyrir bílstjóra fyrirtækisins. Einnig er búið að hanna nokkrar gerðir límmiða sem ætlaðir eru aftan á fólks- og vöruflutningabifreiðar til þess að ná til ökumanna sem á eftir þeim keyra. Þessir miðar eru með mismunandi skilaboðum og geta verið í stærðum sem að passa á ólík ökutæki.

Vertu með í að fækka slysum og „Vertu snjall undir stýri“

Vertu snjall undir stýri