Slysavarnafélagið Landsbjörg hélt ráðstefnu um slysavarnir og öryggi ferðamanna á Grand Hótel í Reykjavík 20. og 21. október sl.  Til ráðstefnunnar var boðið fagfólki úr ýmsum stéttum sem vinna að slysavörnum og öryggismálum á Íslandi.  Á annað hundrað þátttakendur af öllu landinu koma saman og mátti sjá þar áhugafólk um slysavarnir, starfsfólk ferðaþjónustu, starfsfólk stoðþjónustu, fulltrúa tryggingafélaga, fulltrúa löggæslu, heilbrigðisstarfsmenn ásamt öðrum sem láta sig slysavarnir og öryggismál varða.

Smári Sigurðsson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar setti ráðstefnuna og Forseti Íslands Guðni T. Jóhannesson ávarpaði gesti.  Dagskrá ráðstefnunar var að þessu sinni tvískipt, annars vegar öryggi ferðamanna og hinsvegar almennar slysavarnir. Sextán áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir um allt milli himins og jarðar í málefnum tengt slysa- og forvörnum. Þeirra á meðal má t.d. nefna fyrirlestra um notkun hjálma, slysavarnir vegna snjóflóða, snjalltæki og umferðin, áhættustjórnun í ferðaþjónustu, öryggi barna í bílum og margt fleira.  Ráðstefnan hófst á umfjöllun um Slysaskráningu Íslands.  Frá Hollandi kom Susanne Nijman og flutti erindi um það hvernig Hollendingar skrá slys og atvik og hversu auðvelt er að afla ítarlegri upplýsinga ú gagnagrunni þeirra. Fram kom að 50 manns vinna hjá Stofnuninni VeiligheidNL sem er sambærileg Slysaskráningu Íslands en eins og staðan er í dag heyrir hún undir landlæknir og ekkert starfshlutfall heyrir þar undir slysaskráningu eða utanumhald skráningar beint.

Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði panelumræðum eftir erindi Susanne en í panel sátu Sigurjón Andrésson frá Sjóvá, Svanfríður A. Lárusdóttir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ólöf Ýrr Atladóttir frá ferðamálastofu, Brynjólfur Mogesen frá LSH, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi og Gunnar Geir Gunnarsson frá Samgöngustofu.  Öllum bar saman um að endurskoða þarf framkvæmd slysaskráninga og gera niðurstöður aðgengilegri fyrir alla aðila sem vinna að slysa- og forvörnum.

Eftir þessar umræður fóru fyrirlestrar fram í tveimur sölum samtímis. Annars vegar var rætt um stýringu ferðamanna, viðvaranir um veður og náttúruvá, áhættustjórnun og öryggi ferðamanna almennt. Í hinum salnum voru tekin fyrir málefni eins og notkun reiðhjólahjálma, öryggi barna í bílum, slysavarnir til eldri borgara,  Skoðað var hvað önnur Evrópulönd eru að gera í slysavörnum og að lokum hvað öryggisakademía félagsins hefur gert til að sporna við  flugeldaslysum. M.a. kom fram að öryggisakademian hefur gefið út bæklinga um öryggi á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.

Ráðstefnugestir voru sammála um að níutíu ára reynsla Slysavarnafélagsins Landsbjargar í slysavörnum á sjó og landi hefur sýnt fram á mikilvægi þess að þeir taki höndum saman og hafi samráð sem sinna þessum málaflokki og fer þar vel að Slysavarnafélagið kalli saman að borðinu alla hlutaðeigandi aðila.  Þetta er í annað sinn sem félagið stendur fyrir slíkri ráðstefnu og ráðgert er að næsta ráðstefna verði haldin í október 2019.

Ráðstefnan Slysavarnir 2017