Slysavarnadeildin Líf á Akranesi færði Akraneskaupsstað fjórar milljónir króna að gjöf og er peningurinn eyrnamerktur í þeim tilgangi að koma upp hraðamælingarstaurum á sex stöðum í bæjarfélaginu. Tvær verða við akstursleiðir inn í bæinn, bæði á Innnesvegi og á Akranesvegi í grennd við tjaldsvæðið í Kalmansvík. Þá verða settir upp tveir hraðamælingarstaurar við hvorn grunnskólanna í bæjarfélaginu. Munu þeir senda ökumönnum viðeigandi skilaboð um aksturshraða, ýmist með brosandi kalli – eða með skeifu á vör. Þá var Safnaðarheimilinu Vinaminni afhent hjartastuðtæki að gjöf og öðru slíku tæki verður nú komið fyrir í húsnæði deildarinnar í Jónsbúð. Loks var Björgunarfélagi Akraness færðar 500.000 krónur til stuðnings vegna nýja björgunarskips félagsins.