Árlega slasast rúmlega 20 þúsund börn á Íslandi og flest slys sem börn verða fyrir á aldrinum 0 til 5 ára gerast innan veggja heimilis þeirra. Heimili og umhverfi barna er alltaf á ábyrgð foreldra eða forráðamanna barna og þeim ber því skylda til að ganga úr skugga um að það sé eins öruggt og hægt er. 

Þroski barna er mjög hraður og fyrstu árin eru ár tilrauna og uppgvötunar.  Heimilið er griðastaður fjöskyldunar og því kemur mörgum það á óvart að börn slasast helst á heimilinu.  Það er  afar mikilvægt að foreldrar og aðrir ummönunaraðilar fari yfir heimilið með tilliti til öryggis barnanna.  Þetta á að sjálfsögðu einnig við heima hjá ömmu og afa.

Eiturefni: Uppþvottavélarduft og/eða uppþvottatöflur sem og önnur hreinsi- og eiturefni á öruggum stað þar sem barnið nær ekki til.  Það sama gildir um lyf, vítamín og rafhlöður.

Stigar, gluggar og hurðir: Er öryggishlið efst og neðst við stigaop? Opnanleg fög á gluggum þurfa að vera minni en 9 cm og stormjárn klemmufrí.  Snúrur á rimlagardínum/rúllugardínum geta verið hættulegar og eins þarf að huga að því að það sé  öryggisgler í hurðum og borðplötum.  Algengt er að börn klemmi sig á hurðum og það er einfallt að koma í veg fyrir það með klemmuvörn. Það sama gildir um útidyrahurð og svalahurð sem ætti alltaf að vera með pumpu og öryggislæsingu.

Eldhúsið:  Oddhvassir hlutir eins og hnífa og skæri þarf að geyma  þar sem barn nær ekki til.   Það sama gildir um plastpoka og plastfilmur.  Eldavélin er algeng orsök slysa. Takkarnir þurfa að vera varðir fyrir litlum fiktandi fingrum og hurðin á bakaraofninum með kælingu þannig að hún hitni ekki að utan og hlíf fyrir eldavélaborði/hellum.  Gætið einnig að því að snúrur á rafmagnstækjum séu utan seilingar þannig að barnið geti ekki togað yfir sig tækin?  Það er einnig nokkuð algengt að slys verði þegar beislið er ekki notað í matarstól barnsins.

Baðherbergið: Rakvélar, skæri og önnur hættuleg áhöld skal geyma þar sem barn nær ekki til.  Það sama gildir um snyrtivörur og hreinsiefni sem oft eru í spennandi umbúðum. Hálkuvörn þarf að vera í baðkeri eða sturtubotni og hitastýrð blöndunartæki. 

Rafmagn og rafmagnstæki: Er lekastraumsrofi í rafmagnstöflu og virkar hann? Allar innstungur og fjöltengi með barnaöryggi.  Sjónvarpið stöðugt og fest á undirstöðu sem það stendur á.  Það þarf sérstaklega að passa rafmagnsrakvélina, hárþurrkarann og sléttujárnið sem er mjög algengur slysavaldur.

Önnur mikilvæg öryggisatriði:  Aldrei sleppa hendi af barni sem er á skiptiborði og alltaf að nota öryggisólar ef þær eru til staðar.  Eru kojur og rúm með fallvörn?  Hæfa leikföngin aldri barnanna?  Eru miðstöðvarofnar sem geta hitnað mikið varðir fyrir smábörnum?  Gott er að hafa öryggishlífar á oddhvössum borðhornum og festa hillusamstæður og skápa við vegg?  Skotvopn eiga undir öllum kringumstæðum að vera í læstum byssuskápum.

Eldvarnir heimilisins

Góðar eldvarnir skipta gríðarlega miklu máli enda oft um lífshættulegar aðstæður að ræða þegar bruni er annars vegar. Reykskynjarar ættu að vera minnst tveir á heimilinu og ef það er gaseldavél þá einnig gasskynjari.  Slökkvitæki sem er sýnilegt og aðgengilegt og eldvarnateppi í eldhúsinu.  Það þarf svo að yfirfara þessi tæki árlega.

Muna svo eftir litla fólkinu þegar kemur að eldspýtum og kveikjurum.  Sé arinn á heimilinu skal hafa hlíf fyrir eldinum.  Að lokum er nauðsynlegt að fjölskyldan geri áætlun um hvernig á að yfirgefa heimilið ef eldur kemur upp.  Slík flóttaáætlun getur ráðið úrslitum um hvort allir komast heilir út.  Ekki má gleyma mikilvægi þess að allir heimilismeðlimir kunni neyðarnúmerið 112.

Er öryggi barnanna tryggt á þínu heimili