Veglegir tónleikar undir yfirskriftinni “Stöndum þétt saman” með mörgum af okkar þekktustu listamönnum verða haldnir til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg í Eldborgarsal Hörpu miðvikudaginn 1. mars næstkomandi. Meðal þeirra sem þar koma fram eru Jón Jónsson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Stefán Hilmarsson, Eyþór Ingi, María Ólafsdóttir, Friðrik Dór, Jóhanna Guðrún, Haukur Heiðar og Ragnar Bjarnason. Húshljómsveitina skipa: Gunnar Leó Pálsson – trommur, Helgi Reynir Jónsson – gítar, Valdimar Kristjónsson – píanó, Baldur Kristjánsson – bassi og Þórður Gunnar Þorvaldsson – hljómborð og slagverk. Forseti Íslands flytur stutta tölu í upphafi tónleikanna og kynnir verður Eva Ruza.

Miðasala á tónleikana hefst miðvikudaginn 15. febrúar hjá tix.is og harpa.is.
Við skorum á fyrirtæki að hafa samband og skoða sérstaka styrktarpakka sem þeim stendur til boða.

Hugmyndin að tónleikunum vaknaði hjá skipuleggjanda þeirra sem langaði að leggja björgunarsveitunum lið en mikið álag hefur verið að sjálfboðaliðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á síðustu vikum og mánuðum. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa þurft að takast á við mörg umfangsmikil og flókin verkefni á sviði leitar og björgunar að undanförnu en starf björgunarsveitanna er fjármagnað með frjálsum framlögum og stuðningi einstaklinga og fyrirtækja.

Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína, þar með talið tónlistarfólk og tónistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Styrktaraðilar ; 365 miðlar og Harpa.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigurdís Sóley Lýðsdóttir, sími 775 8944.(sigurdis89@gmail.com) Andrés Magnússon, sími 844 7273.

Tónleikar til styrktar Slysavarnafélaginu Landsbjörg