Á kvennaþingi á Patreksfirði í október 2014 hlýddu 145 konur frá 13 deildum á fyrirlestra um slysavarnamál og fjölluðu um þau árlegu verkefni sem Landsbjörg heldur utan um og deildirnar vinna að.  Í kjölfar þingsins hittust nokkrar konur úr fimm deildum á suðurlandi og vildu deila umræðunni með félögum sem ekki höfðu átt tök á því að vera með á Patreksfirði.  Þann 15. nóvember var haldinn vinnustofa eða svokölluð Slysavarnasmiðja í Gróubúð og höfðu félagar úr Slysavarnadeildinni í Reykjavík umsjón með framkvæmdinni.  Smiðjan var þó samstarfsverkefni deildanna og áttu þær allar fulltrúa í undirbúningsnefnd.  Þennan dag komu saman á um fimmta tug félaga úr sex deildum á suðvesturhorni landsins og frá Patreksfirði.  Um morgunin voru flutt stutt erindi um málefni dagsins og svo var skipt í hópa sem unnu eftir fyrirframákveðnu ferli og skiluðu niðurstöðum í lok dagsins.  Mikill fjöldi góðra hugmynda var settur á blað en hóparnir fjölluðu um verkefni sem snúa að börnum og heimilinu. Verkefninu Glöggt er gests augað, umferðarverkefni og ferðamennsku eða Save Travel.  Eftirtaldar deildir áttu fulltrúa á Slysavarnarsmiðju: SVD Dagbjörg í Reykjanesbæ, SVD Una í Garði, SVD Varðan á Seltjarnarnesi, SVD í Reykjavík, SVD Líf á Akranesi og SVD Unnur á Patreksfirði.  Smiðjunni stýrði Svanfríður A. Lárusdóttir. Hópstjórar og frummælendur voru Petrea Jónsdóttir, Hildur Sigfúsdóttir, Kristbjörg og Sólbjörg Gunnbjörnsdætur  og Fríður Birna Stefánsdóttir.  Aðrir ræðumenn dagsins voru Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá SL, Anna Kristjánsdóttir, Sólrún Ólafsdóttir og Hallfríður Jóna Jónsdóttir.  Niðurstöður hópa voru sendar formönnum allra slysavarnadeilda á landinu og eru þannig uppsettar að auðvelt er að nýta sér hugmyndirnar og leita frekari upplýsinga þar sem hópstjóri hvers verkefnis er skráður.

Góð umræða skapaðist um hugmyndir tengdar starfinu sem féllu ekki í þá fjóra málaflokka sem fjallað var um og eiga þær allar sameiginlegt að félagarnir kalla á aukið samstarf milli deilda. Má þar nefna verkefni á landsvísu unnið á sama tíma sem fangar athygli fjölmiðla, sameiginlegt kynningarátak og samræmd kynningargögn. Að efla markvisst samstarf og heimsóknir milli deilda, nýtt fjáröflunarverkefni á landsvísu eyrnamerkt slysavarnadeildum og margt fleira.  Í framhaldi af smiðjunni hefur hópurinn sem stóð að verkefninu haldið umræðum um framtíðarsýn  áfram og heldur úti síðu á fésbókinni þar sem smám saman hafa bæst í hópinn stjórnarmenn úr deildum víðsvegar um landið ásamt öðru góðu fólki sem lætur sig slysavarnamál og framtíð deildanna varða. Það er einlæg von okkar að með þessum samræðum og aukinni samvinnu getum við gert gott starf betra og hvatt allar deildir til umhugsunar um framtíðina, stöðu slysavarnadeilda og slysavarnaverkefna sem unnin eru heima í héraði og á landsvísu.  Að lokum má geta þess að smiðjuhópurinn hefur átt í góðu samstarfi við stjórn og skrifstofu SL og býður þeim deildum sem það vilja heimsókn.  Smiðja þarf ekki endilega að vera um slysavarnamál, hún getur fjallað um deildirnar sjálfar, innra skipulag, kynningamál, fjáraflannir eða hvað sem er og raunverulega þarf ekki fleiri en 12 – 14 þátttakendur til að góður árangur náist.

 

 

Slysavarnasmiðja