Eftir atburði janúarmánaðar sl. hafa yfirvöld stefnt á að fjölg­a ör­ygg­is­mynda­vélum í miðborg Reykja­vík­ur, bæta lýs­ingu á svæðinu, auka sýni­leika lög­reglu og áfram­hald­andi sam­starfi við eig­end­ur skemmti­staða um of­beld­is­lausa og ör­ugga skemmti­staði.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Þar seg­ir enn frem­ur, að lög­regl­an og borg­ar­yf­ir­völd hafi átt gott sam­starf þegar ör­yggi borg­ar­anna er ann­ars veg­ar og svo verði áfram. Þá sé skemmst að minn­ast sam­komu­lags um of­beld­is­lausa og ör­ugga skemmti­staði, sem skrifað var und­ir í lok síðasta árs. Að því standa lög­regl­an, borg­ar­yf­ir­völd, slökkviliðið og Sam­tök ferðaþjón­ustu (SAF) fyr­ir hönd skemmti­staða í Reykja­vík. Sam­komu­lagið miðar að því að auka ör­yggi á og við skemmti­staði með auknu  sam­starfi milli þess­ara aðila með sam­eig­in­lega hags­muni að leiðarljósi.

 

Félagar í slysavarnadeildum eru fólk á öllum aldri af báðum kynjum sem tekur samfélagslega ábyrgð.  Fólk sem vill leggja hönd á plóg með Slysavarnafélaginu Landsbjörg en kýs að leggja áherslu á slysavarnir og forvarnastarf í samstarfi við björgunarsveitir.  Meginmarkmið slysavarnadeilda um land allt er að koma í veg fyrir slys og óhöpp ásamt því  að vera í góðu samstarfi við björgunarsveitina í sínu sveitarfélagi, m.a. við fjáraflanir eða vegna útkalla og annarra aðgerða.  Öryggi á heimilum svo sem eldvarnir og slys á börnum og öldruðum, endurskinsmerki/vesti í leikskóla og grunnskóla, hjálmanotkun, notkun öryggisbelta og barnabílstóla, öryggi leiktækja á almenningssvæðum og svo mætti lengi áfram telja.  Hver slysavarnadeild starfar sjálfstætt og eru verkefni deildanna oft ólík þar sem þörfin er mismunandi eftir byggðarlögum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík er mikilvægur hluti af neti sjálfboðaliða sem sinna björgunarstörfum og slysavörnum á Íslandi. Félagatal deildarinnar telur á sjöunda tug sjálfboðaliða sem gefa mismikið af tíma sínum til starfsins. Einhverjir félagar taka þátt í nær öllum verkefnum deildarinnar, aðrir velja sér verkefni eftir aðstæðum og áhuga á meðan sumir kjósa að halda sér til hlés og styrkja starfið með félagsgjaldi eða styrk.  Félagar eru frá aldrinum 12 ára og upp úr og af báðum kynjum.  Deildin tekur þátt í landsverkefnum á borð við heimsóknir í leikskóla, Reiðhjóla- og hjálmaskoðun í grunnskólum á vorin, heimsóknum til heldri borgara. Einnig erum við öflug í að afla fjár, höldum námskeið fyrir félaga okkar og vinnum með  björgunarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu.

Á næstunni höfum við ákveðið að taka virkan þátt í slysavörnum ferðamanna (Savetravel.is) og erum stöðugt að endurskipuleggja starfið okkar. M.a. tökum við þátt í hálendisvakt björgunarsveita í sumar  og framundan eru spennandi námskeið fyrir félaga og nýja vini okkar.  Ekki má gleyma því að stór hluti af starfinu hjá okkur er félagslegi þátturinn og að má með sanni segja að okkur finnst gaman að vinna í hópi skemmtilegra félaga að verkefnum sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið okkar og um leið erum við hluti af þessum stórkostlegu samtökum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg er.

Slysavarnadeildin á Akureyri afhenti skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli öryggishlið fyrir snjóflóðaýla um liðna helgi. Hliðið var sett upp við ofan við Stromplyftuna, efstu skíðalyftu svæðisins en þaðan halda skíðamenn gjarnan af stað ætli þeir að skíða utan hefðbundinna brauta fjallsins. Í hliðinu er sjálfvirkur búnaður sem lætur skíða- og göngufólk vita hvor snjóflóðaýlar þeirra séu í lagi eða rétt stilltir, ásamt því að veita almennar upplýsingar um snjóflóðavarnir.

Snjóflóðaýlir er mikilvægt öryggistæki sem sífellt fleira göngu, skíða og sleðafólk ber á sér. Ýlirinn sendir frá sér útvarpsbylgjur sem auðveldar leit að fólki í snjóflóðum. Við afhendinguna sagði Halldóra Bjarney Skúladóttir, formaður Slysavarnadeildarinnar á Akureyri að hliðið væri veigamikill þáttur í að auka vitund fólks um mikilvægi snjóflóðaýla meðal þeirra sem stunda fjallamennsku á vetrum.

Veglegir tónleikar undir yfirskriftinni “Stöndum þétt saman” með mörgum af okkar þekktustu listamönnum verða haldnir til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg í Eldborgarsal Hörpu miðvikudaginn 1. mars næstkomandi. Meðal þeirra sem þar koma fram eru Jón Jónsson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Stefán Hilmarsson, Eyþór Ingi, María Ólafsdóttir, Friðrik Dór, Jóhanna Guðrún, Haukur Heiðar og Ragnar Bjarnason. Húshljómsveitina skipa: Gunnar Leó Pálsson – trommur, Helgi Reynir Jónsson – gítar, Valdimar Kristjónsson – píanó, Baldur Kristjánsson – bassi og Þórður Gunnar Þorvaldsson – hljómborð og slagverk. Forseti Íslands flytur stutta tölu í upphafi tónleikanna og kynnir verður Eva Ruza.

Miðasala á tónleikana hefst miðvikudaginn 15. febrúar hjá tix.is og harpa.is.
Við skorum á fyrirtæki að hafa samband og skoða sérstaka styrktarpakka sem þeim stendur til boða.

Hugmyndin að tónleikunum vaknaði hjá skipuleggjanda þeirra sem langaði að leggja björgunarsveitunum lið en mikið álag hefur verið að sjálfboðaliðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á síðustu vikum og mánuðum. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa þurft að takast á við mörg umfangsmikil og flókin verkefni á sviði leitar og björgunar að undanförnu en starf björgunarsveitanna er fjármagnað með frjálsum framlögum og stuðningi einstaklinga og fyrirtækja.

Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína, þar með talið tónlistarfólk og tónistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Styrktaraðilar ; 365 miðlar og Harpa.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigurdís Sóley Lýðsdóttir, sími 775 8944.(sigurdis89@gmail.com) Andrés Magnússon, sími 844 7273.

Slysavarnadeildin Líf á Akranesi færði Akraneskaupsstað  fjórar milljónir króna að gjöf og er peningurinn eyrnamerktur í þeim tilgangi að koma upp hraðamælingarstaurum á sex stöðum í bæjarfélaginu. Tvær verða við akstursleiðir inn í bæinn, bæði á Innnesvegi og á Akranesvegi í grennd við tjaldsvæðið í Kalmansvík. Þá verða settir upp tveir hraðamælingarstaurar við hvorn grunnskólanna í bæjarfélaginu. Munu þeir senda ökumönnum viðeigandi skilaboð um aksturshraða, ýmist með brosandi kalli – eða með skeifu á vör.  Þá var Safnaðarheimilinu Vinaminni afhent hjartastuðtæki að gjöf og öðru slíku tæki verður nú komið fyrir í húsnæði deildarinnar í Jónsbúð. Loks var Björgunarfélagi Akraness færðar 500.000 krónur til stuðnings vegna nýja björgunarskips félagsins.

Bíllinn sem Slysavarnadeildin keypti fyrir rúmu ári síðan hefur svo sannarlega unnið fyrir sínu og nýst deildinni í mörgum verkefnum. Við ferðuðumst á  honum til Fáskrúðsfjarðar á Kvennaþing Landsbjargar, við nýttum hann á flugslysaæfingu þar sem við gáfum svöngum leikurum að borða, á Hátíð hafsins og á Menningarnótt og nú síðast við stóra leit á Reykjanesinu en þá keyrðum við birgðir á milli Hafnafjarðar, Grindavíkur og Reykjanesbæjar.  Björgnarsveitin Kjölur færði okkur Tetra stöð í bílinn og Orkuveitan gaf okkur þrjár handstöðvar þannig að við færumst alltaf nær því marki að verða fullbúin og klár í útköll.

Á aðalfundi í febrúar var kjörin ný stjórn og nýr formaður. Margrét Þóra Baldursdóttir sem haldið hefur á keflinu frá árinu 2014 baðst undan hlutverkinu eftir frábært starf á annasömum tímum hjá deildinni.  Við keflinu tekur Caroline Lefort en hún hefur setið í stjórn frá árinu 2012. Fyrst sem varaformaður og síðan gjaldkeri.  Lögum var breytt á aðalfundi og stjórnarmönnum fjölgað.  Undir takkanum verkefni má sjá ársskýrslu stjórnar frá sl. ári með svipmyndum frá árinu.  Einnig má geta þess að verið er að uppfæra heimasíðuna þessa dagana og von á frekari upplýsingum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík minnir á að endurskinsmerki geta skipt sköpum á dimmum vetrarmorgnum.  Okkur hættir til að passa upp á að börnin séu með endurskin og æða svo út í svartnættið snemma morguns dökk-klædd og ósýnileg í mesta umferðarþunga dagsins.  Sýnum börnum og unglingum gott fordæmi og setjum upp endurskinsmerki.Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fékk heimsókn frá Slysavarnadeildinni í Reykjavík og Björgunarsveitinni Kili sem gáfu þeim endurskinsmerki.

Þann 31. október sl. fór fram virkilega áhugaverð ráðstefna um slysavarnir á vegum Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar í Há­skól­an­um í Reykja­vík.  Fjöl­marg­ir fyr­ir­lestr­ar voru haldn­ir. Systurnar Anna Mar­grét og Lára Krist­ín Óskars­dæt­ur og lýstu því hvaða áhrif það hafði á líf þeirra, tveggja mennta­skóla­stúlkna, þegar móðir þeirra slasaðist illa í reiðhjóla­slysi árið 2010. Móðir þeirra hafði fyr­ir reglu að hjóla með hjálm en í þetta eina skipti þá sleppti hún hon­um, þar sem stutt var að fara. Af­leiðing­arn­ar urðu skelfi­leg­ar og um­turnuðu m.a. lífi systr­anna sem urðu að taka mikla ábyrgð á umönn­un móður sinn­ar eft­ir slysið. Þær sýndu mynd­ir og mynd­bönd frá lífi móður sinn­ar fyr­ir og eft­ir slysið.   Á eftir þeim ræddi Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir um notkagildi hjálma og kynnti rannsóknir um reiðjólaslys.

Þá tók við Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og ræddi eldvarnir á heimilum.  Svanfríður A. Lárusdóttir, Slysavarnadeildinni í Reykjavík kynnti framtíðarverkefni deilarinnar og Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur á Kirkjubæjarklaustri ræddi um viðbragðsaðilar og björgunarsveitir í dreifbýlinu.  Fjóla Guðjónsdóttir sérfræðingur frá Sjóvá greindi frá nýrri könnun og fór yfir hættur sem fylgja gífurlegri farsíma/snjallsímanotkun í umferðinni.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna steig næstur á stokk og rakti sögu um slysavarnir sjómanna og hvernig íslendingum hefur tekist að breyta algjörlegamenningu og hefðum hvað varðar notkun öryggistækja og annað tengt öryggismálum sjómanna.   Fulltrúar frá Slysavarnadeildinni á Akureyri kynntu verkefni sem þau hafa verið að vinna með félagsmiðstöðum á Akureyri og sýndu myndband sem unglingar á Akureyri hafa gert um nauðsyn endurskinsmerkja.

Þá tók við kynning og umfjöllun um slys á ferðamönnum og fór Jón­as Guðmunds­son, verk­efn­is­stjóri slysa­varna ferðamanna hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg, meðal ann­ars yfir nýja sam­an­tekt á töl­um yfir bana­slys ferðmanna hér á landi en þær sýna að þeim hef­ur fækkað mikið frá því um alda­mót­in, eða um 80%, sé fjöldi bana­slysa pr. 100.000 ferðamenn skoðaður.  Jónas ræddi einnig um innviði í ferðaþjónustu, dæmi um hvað mætti bæta og hvar félagar í slysavarnafélaginu Landbjörg geta beitt sér.  Eftir þetta tóku við fjörugar pallborðsumræður með þáttöku  Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra, Gunnars Vals Sveinssonar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Einari Pálssyni frá Vegagerðinni, Gunnari Geir Gunnarssyni frá Samgöngustofu og Jónasi Guðmundssyni frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Bekkurinn var þéttsetinn allan daginn og áhugi ráðstefnufólks leyndi sér ekki.

 

Neyðarkallinn 2015 er björgunarsveitamaður í bílaflokki.
Björgunarsveitarmenn í bílaflokki sjá til þess að ökutæki sveitanna séu alltaf í fullkomnu lagi og tilbúin til notkunar þegar útkall berst. Auk þess sjá meðlimir bílaflokks gjarnan um akstur þeirra til og frá vettvangi og á æfingum. Salan fer fram 5.-7. nóvember.

Takk fyrir að standa við bakið á okkur!