Slysavarnafélagið Landsbjörg og félagseiningar þess hafa í mörg ár stuðlað að aukinni notkun almennings á endurskinsmerkjum, meðal annars með því að gefa endurskinsmerki.  Með notkun endurskinsmerkja er hinn almenni vegfarandi að auka öryggi sitt til muna,  hann sést fimm sinnum fyrr þegar hann lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskin. Best er að velja fatnað sem er með endurskini á. Ef endurskin er ekki til staðar á fatnaðinum þarf að hafa laus endurskinsmerki á sér. Endurskinsmerkin þurfa að vera þannig  staðsett að ljósgeisli frá bíl falli á þau hvort sem bíllinn kemur á móti eða aftan að vegfaranda.

Staðsetning endurskinsmerkja

Endurskinsmerki þurfa að vera neðarlega og sjást frá öllum hliðum. Hangandi endurskinsmerki er best að setja fyrir neðan mitti, eitt á hvora hlið. Allar skólatöskur/bakpokar eiga að vera með endurskinsmerki.
Á barnavögnum er best að hafa endurskin á öllum hliðum.

Framleiðandi

Glimmis endurskinsmerkin sem slysavarnadeildir og björgunarsveitir eru að gefa/selja eru framleidd af fyrirtækinu Popomax. Glimmis endurskinsmerkin eru öryggisbúnaður framleiddur í Svíþjóð og á ekki að nota sem leikfang. Endurskinsmerkin frá Glimmis uppfylla staðla um persónuleg endurskinsmerki (EN 13356, SP-ID-númer 04022, vottunarnúmer 424601) og eru CE-vottuð.

Ef endurskinsmerkið rispast, skemmist eða verður óhreint, dregur úr endurskinsgetunni. Strjúkið því reglulega af því með rökum klúti og skiptið út skemmdum merkjum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur hrint af stað stóru og viðamiklu átaksverkefni með það að markmiði að breyta viðhorfi fólks til snjalltækjanotkunar og snúa þannig við þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað vegna notkun snjalltækja í umferðinni.  Áberandi er orðið hversu mörgum þykir sjálfsagt að lesa og skrifa smáskilaboð, tölvupósta og jafnvel horfa á myndefni í snjalltæki sínu við akstur. Þetta hefur aukið slysahættu verulega í umferðinni og því mikilvægt að bregðast við.

Samkvæmt rannsóknum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum bendir allt til þess að nær 25% af öllum umferðarslysum má rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri. Þetta er því orðin ein mesta ógnin í umferðinni og mikilvægt að allir taki höndum saman.

Samstarf við fyrirtæki

Til þess að ná ofangreindum markmiðum viljum við fá í lið með okkur öflug fyrirtæki sem öll eiga það sameiginlegt að halda úti atvinnutækjum í umferðinni.

Í þessu samfélagsverkefni væri frábært að sjá atvinnubílstjóra taka virkan þátt og setja gott fordæmi fyrir aðra í umferðinni. Þetta er því kjörið tækifæri til þess að gera samkomulag við starfsfólk ykkar og vera þannig leiðandi í risastóru umferðaröryggisátaki.

  • Skrifa undir samfélagslega yfirlýsingu um þátttöku í verkefninu
  • Merkja bílaflotann á kostnað fyrirtækis
  • Gera samning við ykkar bílstjóra um að taka virkan þátt í verkefninu
  • Fræðsla til starfsmanna og bílstjóra fyrirtækis

Boðið verður upp á fyrirlestur fyrir bílstjóra fyrirtækisins. Einnig er búið að hanna nokkrar gerðir límmiða sem ætlaðir eru aftan á fólks- og vöruflutningabifreiðar til þess að ná til ökumanna sem á eftir þeim keyra. Þessir miðar eru með mismunandi skilaboðum og geta verið í stærðum sem að passa á ólík ökutæki.

Vertu með í að fækka slysum og „Vertu snjall undir stýri“

Slysavarnafélagið Landsbjörg hélt ráðstefnu um slysavarnir og öryggi ferðamanna á Grand Hótel í Reykjavík 20. og 21. október sl.  Til ráðstefnunnar var boðið fagfólki úr ýmsum stéttum sem vinna að slysavörnum og öryggismálum á Íslandi.  Á annað hundrað þátttakendur af öllu landinu koma saman og mátti sjá þar áhugafólk um slysavarnir, starfsfólk ferðaþjónustu, starfsfólk stoðþjónustu, fulltrúa tryggingafélaga, fulltrúa löggæslu, heilbrigðisstarfsmenn ásamt öðrum sem láta sig slysavarnir og öryggismál varða.

Smári Sigurðsson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar setti ráðstefnuna og Forseti Íslands Guðni T. Jóhannesson ávarpaði gesti.  Dagskrá ráðstefnunar var að þessu sinni tvískipt, annars vegar öryggi ferðamanna og hinsvegar almennar slysavarnir. Sextán áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir um allt milli himins og jarðar í málefnum tengt slysa- og forvörnum. Þeirra á meðal má t.d. nefna fyrirlestra um notkun hjálma, slysavarnir vegna snjóflóða, snjalltæki og umferðin, áhættustjórnun í ferðaþjónustu, öryggi barna í bílum og margt fleira.  Ráðstefnan hófst á umfjöllun um Slysaskráningu Íslands.  Frá Hollandi kom Susanne Nijman og flutti erindi um það hvernig Hollendingar skrá slys og atvik og hversu auðvelt er að afla ítarlegri upplýsinga ú gagnagrunni þeirra. Fram kom að 50 manns vinna hjá Stofnuninni VeiligheidNL sem er sambærileg Slysaskráningu Íslands en eins og staðan er í dag heyrir hún undir landlæknir og ekkert starfshlutfall heyrir þar undir slysaskráningu eða utanumhald skráningar beint.

Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði panelumræðum eftir erindi Susanne en í panel sátu Sigurjón Andrésson frá Sjóvá, Svanfríður A. Lárusdóttir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ólöf Ýrr Atladóttir frá ferðamálastofu, Brynjólfur Mogesen frá LSH, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi og Gunnar Geir Gunnarsson frá Samgöngustofu.  Öllum bar saman um að endurskoða þarf framkvæmd slysaskráninga og gera niðurstöður aðgengilegri fyrir alla aðila sem vinna að slysa- og forvörnum.

Eftir þessar umræður fóru fyrirlestrar fram í tveimur sölum samtímis. Annars vegar var rætt um stýringu ferðamanna, viðvaranir um veður og náttúruvá, áhættustjórnun og öryggi ferðamanna almennt. Í hinum salnum voru tekin fyrir málefni eins og notkun reiðhjólahjálma, öryggi barna í bílum, slysavarnir til eldri borgara,  Skoðað var hvað önnur Evrópulönd eru að gera í slysavörnum og að lokum hvað öryggisakademía félagsins hefur gert til að sporna við  flugeldaslysum. M.a. kom fram að öryggisakademian hefur gefið út bæklinga um öryggi á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.

Ráðstefnugestir voru sammála um að níutíu ára reynsla Slysavarnafélagsins Landsbjargar í slysavörnum á sjó og landi hefur sýnt fram á mikilvægi þess að þeir taki höndum saman og hafi samráð sem sinna þessum málaflokki og fer þar vel að Slysavarnafélagið kalli saman að borðinu alla hlutaðeigandi aðila.  Þetta er í annað sinn sem félagið stendur fyrir slíkri ráðstefnu og ráðgert er að næsta ráðstefna verði haldin í október 2019.

Slysavarnadeildin í Reykjavík, Slysavarnadeildin Dagbjörg, Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur og Unglingadeildin Árný taka virkan þátt í Hátíð hafsins. Hittu okkur um borð í Skólaskipinu Sæbjörg og fáðu þér vöfflu með rjóma eða við Gömlu sjóbúðina þar sem við grillum pylsur báða dagana og svo verður okkar rómaða kaffihlaðborð á sínum stað í Gróubúð á sunnudeginum.

Dagskrá hátíðarinnar er hér www.hatidhafsins.is

Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur svo sannarlega fyrir meira en leit og björgun þó oftar rati í fjölmiðla fréttir af aðgerðum félagsins þegar einhver er týndur eða þegar óveður geisar og sjálfboðaliðar félagsins taka höndum saman um að bjarga fólki og verðmætum.  Félagið stendur líka fyrir öflugum slysavörnum og hefur náð ótrúlegum árangri í íslensku samfélagi í áratugi.

Í félaginu er fjöldi félaga sem starfa eingöngu að slysa- og forvarnamálum í sínu nærsamfélagi í samstarfi við björgunarsveitirnar og önnur félög og stofnanir.  Á höfuðborgarsvæðinu, vesturlandi, vestfjörðum, norðurlandi, austurlandi og suðurlandi eru sjálfboðaliðar félagsins að vinna að slysa- og forvörnum.  Félagarnir sinna störfum sínum í heilbrigðisstétt eru leikskólakennarar, kennarar, iðnaðarmenn og fagfólk úr ýmsum stéttum.  Við erum líka mömmur, pabbar, afar og ömmur og búum því yfir mikilli þekkingu þegar kemur að slysavörnum barna og fullorðinna, á heimilinu, í umferðinni og umhverfinu öllu.

Slysavarnadeildir félagsins hófu árið 1965 að beita sér fyrir notkun endurskinsmerkja og gefa í dag mörg þúsund merki á ári til skólabarna, ungmenna og eldri borgara ásamt því að færa leikskólum endurskinsvesti fyrir litla fólkið sem notuð eru í vettvangsferðum.  Reglulega framkvæma slysavarnadeildir og björgunarsveitir könnunina „Öryggi barna í bílum“.  Umferðaslysavarnir, reiðhjól og hjálmanotkun barna eru meðal þess sem félagið hefur beitt sér fyrir og staðið þar í fararbroddi.  Nýbakaðir foreldrar fá í ungbarnaeftirliti hjá heilsugæslustöðvum bæklinginn „Er öryggi barnanna tryggt á þínu heimili?“ frá félaginu og fjölmargar slysavarnadeildir færa nýbökuðum foreldrum ungbarnagjafir með forvarnarorðum og nú er á áætlun að færa þær upplýsingar í sjallform þannig að ungir foreldrar hafi varnarorð og ráðleggingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar við hendina í snjallsímanum sínum.  Einingar félagsins standa oft fyrir ibúafræðslufundum og námskeiðum í sínu nærsamfélagi þar sem fagfólk er fengið til liðs með forvarnir og góð ráð.  Margir eldri borgarar hafa fengið heimsóknir frá slysavarnafélögum þar sem heimili þeirra eru tekin út með tilliti til slysahættu. Slysavarnafélagar hafa skoðað opin leiksvæði og umhverfi skóla og gert  tillögur til úrbóta til bæjar- og sveitafélaga.   Stór þáttur í starfi félagsins í dag eru slysavarnir ferðamanna en félagið rekur verkefnið Safetravel þar sem upplýsingamiðstöð, upplýsingavefurinn safetravel.is og upplýsingaskjáir um land allt upplýsa ferðamenn og benda þeim á hættur sem leynast á ferðalagi þeirra.  Björgunarsveitir ásamt slysavarnafélögum standa hálendisvakt allt sumarið í Landmannalaugum, á Sprengisandi og Drekasvæði og aðstoða erlenda og innlenda ferðamenn.

Á hausti komandi heldur Slysavarnafélagið Landsbjörg ráðstefnu um slysavarnir og kallar þar til liðs við sig fagfólk og áhugasama um slysavarnir til samtals og ráðagerða.  Upplýsandi ráðstefna um slysavarnir í sinni víðustu mynd.

Í hartnær 100 ár hafa þúsundir sjálfboðaliða lagt fram óteljandi vinnustundir í þeim tilgangi að gera umhverfið okkar öruggara og koma í veg fyrir slys hjá samborgurunum og þó að sjálfboðaliðarnir okkar eldist og hverfi úr starfi koma nýir til starfa og félagið heldur úti öflugri þjálfun og námskeiðahaldi fyrir sitt fólk.  Þekkingin heldur áfram að vera til innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar kynslóð fram af kynslóð og það er alltaf pláss fyrir nýtt fólk sem brennur fyrir slysavörnum og hefur það að markmiði að stuðla að öruggara samfélagi.

Það er dýrt að reka björgunarsveit og viðhalda öllum tækjum og tólum sem til þarf við leit og björgun.  Þetta vita slysavarnafélagar mæta vel og taka sig því reglulega til og styrkja starf björgunarsveita með fjárframlögum.  Í dag færðu félagar í  Slysavarnadeildinni Vörðunni á Seltjarnarnesi Björgunarsveitinni Ársæl í Reykjavík og Björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi rausnarlegar upphæðir til að efla starf sveitanna við leitarstörfin.

Slysavarnadeildin á Dalvík ákvað að gera ungum börnum hátt undir höfði.  Heyrnin er mikilvæg en hún skerðist ef ekki er að gáð. Mikill hávaði, s.s. eins og á tónleikum, flugeldasýningum, á gamlárskvöld, viðvarandi hávaði heima fyrir, í verslunarmiðstöðvum og í umferðinni, geta skemmt heyrn ungra barna. Við erum almennt séð ekki nógu vakandi fyrir þessari hættu. Heyrnaskjól draga verulega úr hávaða og lítil eyrum þurfa á þeim að halda.  Starfsmenn Heilsugæslunnar á Dalvík munu afhenda heyrnaskjólin fyrir hönd deildarinnar þegar barn kemur í 6 mánaða skoðun og það er von Slysavarnafélaga að foreldrar á Dalvík noti heyrnaskjólin þegar við á.

Slysavarnadeildin á Dalvík lætur að sér kveða þegar kemur að slysavörnum og viðbrögðum við slysum. Á dögunum afhentu stjórnarmenn Snæþóri Arnþórssyni formanni Skíðafélags Dalvíkur gjöf.

Við fengum ábendingu um að skíðafélaginu vantaði uppblásna sjúkraböru sem nýtist vel til að flytja slasaðan einstakling. Búnaðurinn er geymdur í bakpoka sem einn maður getur borið. Tæknin er einföld, börurnar eru loftæmdar, þær laga sig að líkamanum og styðja við hann líkt og spelkur gera. Von okkar er að þessi gjöf komið að góðum notum en jafnframt að það þurfi sjaldan að nota hana.

Snjallsímaforritið 112 ICELAND er afar einfalt i notkun og hefur tvennskonar virkni. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar að skilja eftir sig „slóð“ en slíkt má nota ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram.

Forritið leysir ekki af hólmi önnur öryggistæki eins og neyðarsenda og talstöðvar. Er fyrst og fremst viðbót sem nýtist þeim sem nota snjallsíma. Ekki er þörf á gagnasambandi til að nota forritið. Hefðbundið GSM samband dugar.

112 ICELAND má nota bæði hérlendis og erlendis. Samskiptin eru þó alltaf við 112 á Íslandi en sértu erlendis hafa þeir samband við viðbragðsaðila í því landi sem þú ert í.

Hægt er að sækja foritið hér: http://safetravel.is/is/112-iceland-app/

 

Hvernig samfélag er öruggt samfélag og hvað er hægt að gera til að gera samfélag öruggt til að búa í? Margt kemur upp í hugann þegar slík spurning er borin fram. Við viljum t.d. að börnin okkar geti leikið sér á öruggum leikvöllum, að öryggismál skólanna séu í lagi og að þar sé unnið gegn einelti. Við viljum að við það að verða gamall/gömul í samfélaginu finni maður fyrir öryggi, t.d. að við getum verið örugg þegar við erum að hreyfa okkur utandyra m.a. vegna þess að í göngu- og gatnakerfinu sé tekið tillit til okkar. Við viljum að börnum og unglingum í samfélaginu sé gert auðvelt að ástunda heilbrigt líferni og að allt sé gert til að koma í veg fyrir að þau byrji að reykja, drekka eða nota önnur fíkniefni, svo fá dæmi séu nefnd.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, telur þetta alvarlega ógn við efnahagslega og félagslega framþróun í heiminum. Til að bregðast við þessu hefur stofnunin m.a. beitt sér fyrir því að nærsamfélög skilgreini sig sem Örugg samfélög og grípi til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr hættunni á slysum og ofbeldi.

Öruggt samfélag getur verið af hvaða stærð eða gerð sem er, borg, bær eða hreppur, en einnig hverfi innan borgar. Tengslin á milli íbúa, stofnana og fyrirtækja eru gjarnan sterk og oft mjög náin í nærsamfélaginu, sem er mikilvægt í öllu forvarnarstarfi. Einnig tekst oft að virkja fólk í nærsamfélaginu til verka sem ekki er hægt að ná fram á stærri svæðum.

Úr grein eftir Rósu Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri slysavarna, Lýðheilsustöð.

Meira um verkefnið öruggt samfélag á síðu Landlæknis

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item14673/Oruggt-samfelag