Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur svo sannarlega fyrir meira en leit og björgun þó oftar rati í fjölmiðla fréttir af aðgerðum félagsins þegar einhver er týndur eða þegar óveður geisar og sjálfboðaliðar félagsins taka höndum saman um að bjarga fólki og verðmætum.  Félagið stendur líka fyrir öflugum slysavörnum og hefur náð ótrúlegum árangri í íslensku samfélagi í áratugi.

Í félaginu er fjöldi félaga sem starfa eingöngu að slysa- og forvarnamálum í sínu nærsamfélagi í samstarfi við björgunarsveitirnar og önnur félög og stofnanir.  Á höfuðborgarsvæðinu, vesturlandi, vestfjörðum, norðurlandi, austurlandi og suðurlandi eru sjálfboðaliðar félagsins að vinna að slysa- og forvörnum.  Félagarnir sinna störfum sínum í heilbrigðisstétt eru leikskólakennarar, kennarar, iðnaðarmenn og fagfólk úr ýmsum stéttum.  Við erum líka mömmur, pabbar, afar og ömmur og búum því yfir mikilli þekkingu þegar kemur að slysavörnum barna og fullorðinna, á heimilinu, í umferðinni og umhverfinu öllu.

Slysavarnadeildir félagsins hófu árið 1965 að beita sér fyrir notkun endurskinsmerkja og gefa í dag mörg þúsund merki á ári til skólabarna, ungmenna og eldri borgara ásamt því að færa leikskólum endurskinsvesti fyrir litla fólkið sem notuð eru í vettvangsferðum.  Reglulega framkvæma slysavarnadeildir og björgunarsveitir könnunina „Öryggi barna í bílum“.  Umferðaslysavarnir, reiðhjól og hjálmanotkun barna eru meðal þess sem félagið hefur beitt sér fyrir og staðið þar í fararbroddi.  Nýbakaðir foreldrar fá í ungbarnaeftirliti hjá heilsugæslustöðvum bæklinginn „Er öryggi barnanna tryggt á þínu heimili?“ frá félaginu og fjölmargar slysavarnadeildir færa nýbökuðum foreldrum ungbarnagjafir með forvarnarorðum og nú er á áætlun að færa þær upplýsingar í sjallform þannig að ungir foreldrar hafi varnarorð og ráðleggingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar við hendina í snjallsímanum sínum.  Einingar félagsins standa oft fyrir ibúafræðslufundum og námskeiðum í sínu nærsamfélagi þar sem fagfólk er fengið til liðs með forvarnir og góð ráð.  Margir eldri borgarar hafa fengið heimsóknir frá slysavarnafélögum þar sem heimili þeirra eru tekin út með tilliti til slysahættu. Slysavarnafélagar hafa skoðað opin leiksvæði og umhverfi skóla og gert  tillögur til úrbóta til bæjar- og sveitafélaga.   Stór þáttur í starfi félagsins í dag eru slysavarnir ferðamanna en félagið rekur verkefnið Safetravel þar sem upplýsingamiðstöð, upplýsingavefurinn safetravel.is og upplýsingaskjáir um land allt upplýsa ferðamenn og benda þeim á hættur sem leynast á ferðalagi þeirra.  Björgunarsveitir ásamt slysavarnafélögum standa hálendisvakt allt sumarið í Landmannalaugum, á Sprengisandi og Drekasvæði og aðstoða erlenda og innlenda ferðamenn.

Á hausti komandi heldur Slysavarnafélagið Landsbjörg ráðstefnu um slysavarnir og kallar þar til liðs við sig fagfólk og áhugasama um slysavarnir til samtals og ráðagerða.  Upplýsandi ráðstefna um slysavarnir í sinni víðustu mynd.

Í hartnær 100 ár hafa þúsundir sjálfboðaliða lagt fram óteljandi vinnustundir í þeim tilgangi að gera umhverfið okkar öruggara og koma í veg fyrir slys hjá samborgurunum og þó að sjálfboðaliðarnir okkar eldist og hverfi úr starfi koma nýir til starfa og félagið heldur úti öflugri þjálfun og námskeiðahaldi fyrir sitt fólk.  Þekkingin heldur áfram að vera til innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar kynslóð fram af kynslóð og það er alltaf pláss fyrir nýtt fólk sem brennur fyrir slysavörnum og hefur það að markmiði að stuðla að öruggara samfélagi.

Öflugar slysavarnir skila árangri