Þann 28. apríl 1930 stóðu 100 konur að því að stofna Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík.   Deildin var fyrsta kvennadeildin undir þá tiltölulega nýstofnuðu Slysavarnarfélagi Íslands. 

  Reykjavíkurdeildin, sem í dag fagnar  90 ára afmæli, var stofnuð fyrir tilstuðlan frú Guðrúnar Jónasson en hún var jafnframt fyrsti formaður deildarinnar.   Á stofnfundinum sagði frú Guðrún;  “Þar sem konur starfa í almennum félagsskap eru þær oft óþarflega hlédrægar, en þegar þær bera alla ábyrgð sjálfar, verður árangurinn tvímælalaust bestur. Þá leggja þær hiklaust fram krafta sína og stuðla að því allar í sameiningu að þoka áfram þeim málum sem þær hafa tekið upp á arma sína.”   

 Stofnendur slysavarnadeilda  um landið, eiginkonur, mæður og dætur sjómanna unnu þrotlaust að því að tryggja öryggi sinna manna.  Ótrúlegur árangur hefur náðst á sl. 90 hvað varðar öryggi sjófarenda.  
Frumkvöðlarnir í slysavarnarstarfi á Íslandi  mundu svo sannarlega gleðjast yfir þeirri staðreynd að enginn hefur
farist á sjó undanfarin þrjú ár.

Margt hefur breyst á 90 árum, fyrstu áratugir í starfi deildarinnar  snerust fyrst og fremst að öryggi sjómanna  eins og áður sagði.   Með breyttum tímum hafa slysavarnir beinst í aðrar áttir, svo sem að öryggi barna, eldri borgara, ferðamanna  og í umferðinni.   Þar að auki hafa flestar fjáraflanir deildarinnar snúið að því að styðja við starfsemi og þá fyrst og fremst tækjakaup björgunarsveita.   

Nítíu ár er langur tími í starfi frjálsra félagasamtaka. Nauðsynlegt er að félög endurnýji sig og aðlagist breyttum tímum.   Þá hefur líka orðið sú breyting á konum að þær eru ekki eins hlédrægar og þær voru í félagsskap karla árið 1930.  Því þótti ástæða til þess að opna starf slysavarnadeilda fyrir öllum.

  Í dag störfum við undir nafni Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík (SVDR).  Allir sem hafa áhuga á því að leggja sitt af mörkum til öruggara umhverfis eru velkomnir til starfa í Slysavarnardeildinni í Reykjavík.


Níutíu árunum er fagnað á skrítnum tímum þar sem ósýnilegur óvinur herjar á samfélagið og því munum við eins og allir aðrir þurfa að slá veisluhöldum á frest.  Engu að síður langar okkur að hvetja allan almenning til að horfa í kringum sig á gönguferðum sínum,  í tveggja metra fjarlægð og senda okkur ábendingar um slysagildrur í nærumhverfinu .  Því rétt eins og við erum öll sóttvarnir getum viðöll verið slysavarnir. 

Með hækkandi sól ætlar SVDR að standa fyrir skipulögðum gönguferðum um hverfi  borgarinnar með tilliti til þess sem má laga, til að  gera umhverfi okkar öruggara. Ábendingar um staði sem vert er að skoða má senda deildinni á netfangið slysavarnadeild@slysavarnadeild.is


Við þökkum öðrum slysavarnadeildum og björgunarsveitum samstarfið undanfarin 90 ár og hlökkum til áframhaldandi samstarfs því þó árangri
hafi verið náð á ýmsum sviðum mætum við sífellt nýjum áskorunum.   

Síðast en ekki síst viljum við þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa stutt við deildina frá upphafi. 

Eftir Eddu Guðmundsdóttur formann SVDR

Birt í Morgunblaðinu 28.4.2020 

Slysavarnir í 90 ár