Jarðskjálftar verða þegar jarðskorpan brotnar eða hrekkur til á gömlum brotaflötum. Þeir gera sjaldnast boð á undan sér. Því er nauðsynlegt að gera öryggisráðstafanir fyrirfram og læra rétt viðbrögð.  Á síðu almannavarna eru góðar leiðbeiningar um hvernig við getum brugðist rétt við ef við verðum vör við jarðskjálfta. Þar kemur meðal annars fram.

Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað.

• Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað

• Farðu undir borð eða rúm, verðu höfuð og háls, haltu þér í sterkbyggð húsgögn

• Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg. Gætið fyllstu varúðar og skoðið flóttaleið út eftir skjálftann.

• Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta

• Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað

• Láttu þína nánustu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftnn hættir

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn

• Vertu áfram úti – reyndu að finna skjól til að krjúpa, skýla, halda

• Reyndu að koma þér frá byggingum sem geta hrunið

• Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi

• Raflínur eru hættulegar ef þær slitna – varist að snerta þær

• Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að

  • Farðu frá ströndinni ef þú ert á svæði þar sem hætta er á flóðbylgju

Ef þú ert að keyra þegar þú finnur jarðskjálfta:

• Leggðu ökutæki og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

• Hafðu sætisbeltin spennt

• Haltu kyrru fyrir ef þú ert í bíl þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem hægt er að verða fyrir í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.

Nánar hér:

https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/vidbrogd-vid-jardskjalfta/

Bingó Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík var haldið í Vinabæ 6.mars 2021 kl.14:30. Allur ágóði af þessu verkefni rennur árlega óskiptur til slysavarnaverkefna. Húsfyllir var með tilliti til samkomutakmarkanna og skemmtu mættir sér vel. Slysavarnadeildir þakkar þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem styrkja okkur með veglegum vinningum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík hélt 90. aðalfundar deildarinnar þann 18.febrúar 2021 kl: 20:00 í Gróubúð Grandagarði 1. Þar var meðal annars kjörin ný stjórn. Edda Guðmundsdóttir var endurkjörin sem formaður. Mjög góð mæting var á fundinn en vegna samkomutakmarkanna bauðst félögum að vera í fjarfundi og tókst það vel.

Þrátt fyrir að sóttvarnarreglur hafi sett strik í reikningin þá hafa félagar í Slysavarnadeildinni í Reykjavík fundið leiðir til að halda starfinu gangandi og í nóvember tókum við þátt í landsverkefni þar sem félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg um land allt dreifðu endurskinsmerkjum í nærsamfélaginu.  Verkefnið var unnið í samstarfi með Samgöngustofu og Sjóvá. Búið er að gefa yfir 80.000 endurskinsmerki.

Í myrkri sjást óvarðir vegfarendur (gangandi, hjólandi) illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða og er notkun endurskinsmerkja þess vegna nauðsynleg

Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:

  • Fremst á ermum 
  • Hangandi meðfram hliðum 
  • Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum  

Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði. Það er staðreynd að ökumenn sjá óvarða vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ella og því getur notkun endurskinsmerkja skilið milli lífs og dauða.

Með sinni annáluðu einbeitingu hafa reykskynjarar staðið eldvarnar-vaktina síðan árið 1902.

1. desember er alþjóðlegur dagur reykskynjarans og þá ber öllum að huga að líðan reykskynjara í sínu nærumhverfi. Það er lífsnauðsynlegt að tryggja þeim kjöraðstæður, svo þeir geti staðið vaktina fyrir þig og ástvini þína.

✅ Ekki láta þitt eftir liggja!

Fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 20:00 mun stjórn deildarinnar kynna vetrarstarfið í Gróubúð, Grandagarði 1 Reykjavík.

Gestur kvöldsins er Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi og mun hún fjalla um samskipti.

Boðið verður uppá heilsueflandi veitingar.

Fundurinn er öllum opinn.

Þann 28. apríl 1930 stóðu 100 konur að því að stofna Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík.   Deildin var fyrsta kvennadeildin undir þá tiltölulega nýstofnuðu Slysavarnarfélagi Íslands. 

  Reykjavíkurdeildin, sem í dag fagnar  90 ára afmæli, var stofnuð fyrir tilstuðlan frú Guðrúnar Jónasson en hún var jafnframt fyrsti formaður deildarinnar.   Á stofnfundinum sagði frú Guðrún;  “Þar sem konur starfa í almennum félagsskap eru þær oft óþarflega hlédrægar, en þegar þær bera alla ábyrgð sjálfar, verður árangurinn tvímælalaust bestur. Þá leggja þær hiklaust fram krafta sína og stuðla að því allar í sameiningu að þoka áfram þeim málum sem þær hafa tekið upp á arma sína.”   

 Stofnendur slysavarnadeilda  um landið, eiginkonur, mæður og dætur sjómanna unnu þrotlaust að því að tryggja öryggi sinna manna.  Ótrúlegur árangur hefur náðst á sl. 90 hvað varðar öryggi sjófarenda.  
Frumkvöðlarnir í slysavarnarstarfi á Íslandi  mundu svo sannarlega gleðjast yfir þeirri staðreynd að enginn hefur
farist á sjó undanfarin þrjú ár.

Margt hefur breyst á 90 árum, fyrstu áratugir í starfi deildarinnar  snerust fyrst og fremst að öryggi sjómanna  eins og áður sagði.   Með breyttum tímum hafa slysavarnir beinst í aðrar áttir, svo sem að öryggi barna, eldri borgara, ferðamanna  og í umferðinni.   Þar að auki hafa flestar fjáraflanir deildarinnar snúið að því að styðja við starfsemi og þá fyrst og fremst tækjakaup björgunarsveita.   

Nítíu ár er langur tími í starfi frjálsra félagasamtaka. Nauðsynlegt er að félög endurnýji sig og aðlagist breyttum tímum.   Þá hefur líka orðið sú breyting á konum að þær eru ekki eins hlédrægar og þær voru í félagsskap karla árið 1930.  Því þótti ástæða til þess að opna starf slysavarnadeilda fyrir öllum.

  Í dag störfum við undir nafni Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík (SVDR).  Allir sem hafa áhuga á því að leggja sitt af mörkum til öruggara umhverfis eru velkomnir til starfa í Slysavarnardeildinni í Reykjavík.


Níutíu árunum er fagnað á skrítnum tímum þar sem ósýnilegur óvinur herjar á samfélagið og því munum við eins og allir aðrir þurfa að slá veisluhöldum á frest.  Engu að síður langar okkur að hvetja allan almenning til að horfa í kringum sig á gönguferðum sínum,  í tveggja metra fjarlægð og senda okkur ábendingar um slysagildrur í nærumhverfinu .  Því rétt eins og við erum öll sóttvarnir getum viðöll verið slysavarnir. 

Með hækkandi sól ætlar SVDR að standa fyrir skipulögðum gönguferðum um hverfi  borgarinnar með tilliti til þess sem má laga, til að  gera umhverfi okkar öruggara. Ábendingar um staði sem vert er að skoða má senda deildinni á netfangið slysavarnadeild@slysavarnadeild.is


Við þökkum öðrum slysavarnadeildum og björgunarsveitum samstarfið undanfarin 90 ár og hlökkum til áframhaldandi samstarfs því þó árangri
hafi verið náð á ýmsum sviðum mætum við sífellt nýjum áskorunum.   

Síðast en ekki síst viljum við þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa stutt við deildina frá upphafi. 

Eftir Eddu Guðmundsdóttur formann SVDR

Birt í Morgunblaðinu 28.4.2020