Um þessar mundir eru félagar úr Slysavarnadeild í Reykjavík að sinna verkefni sem unnið hefur verið á landsvísu annað hvert ár í samvinnu við Samgöngustofu. Við heimsækjum valda leiksskóla og skoðum hvort börn eru í bílstólum sem hæfa aldri og hvort fullorðnir eru spenntir í öryggisbelti. Í ár er þetta svolítið snúið þar sem félagar okkar verða að gæta fyllstu sóttvarna. Það er því hringt í viðkomandi leikskólastjóra daginn áður og fólkið okkar mætir svo morgunin eftir og kemur ekki inn á leikskólann. Við höldum einnig 2 metra fjarlægð þannig að lítið verður um spjall og eigendaskipti á bæklingum.