Félagar í slysavarnadeildum eru fólk á öllum aldri af báðum kynjum sem tekur samfélagslega ábyrgð.  Fólk sem vill leggja hönd á plóg með Slysavarnafélaginu Landsbjörg en kýs að leggja áherslu á slysavarnir og forvarnastarf í samstarfi við björgunarsveitir.  Meginmarkmið slysavarnadeilda um land allt er að koma í veg fyrir slys og óhöpp ásamt því  að vera í góðu samstarfi við björgunarsveitina í sínu sveitarfélagi, m.a. við fjáraflanir eða vegna útkalla og annarra aðgerða.  Öryggi á heimilum svo sem eldvarnir og slys á börnum og öldruðum, endurskinsmerki/vesti í leikskóla og grunnskóla, hjálmanotkun, notkun öryggisbelta og barnabílstóla, öryggi leiktækja á almenningssvæðum og svo mætti lengi áfram telja.  Hver slysavarnadeild starfar sjálfstætt og eru verkefni deildanna oft ólík þar sem þörfin er mismunandi eftir byggðarlögum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík er mikilvægur hluti af neti sjálfboðaliða sem sinna björgunarstörfum og slysavörnum á Íslandi. Félagatal deildarinnar telur á sjöunda tug sjálfboðaliða sem gefa mismikið af tíma sínum til starfsins. Einhverjir félagar taka þátt í nær öllum verkefnum deildarinnar, aðrir velja sér verkefni eftir aðstæðum og áhuga á meðan sumir kjósa að halda sér til hlés og styrkja starfið með félagsgjaldi eða styrk.  Félagar eru frá aldrinum 12 ára og upp úr og af báðum kynjum.  Deildin tekur þátt í landsverkefnum á borð við heimsóknir í leikskóla, Reiðhjóla- og hjálmaskoðun í grunnskólum á vorin, heimsóknum til heldri borgara. Einnig erum við öflug í að afla fjár, höldum námskeið fyrir félaga okkar og vinnum með  björgunarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu.

Sendu okkur póst og við höfum samband.

 

Viltu taka samfélagslega ábyrgð og vinna með okkur?