Slysavarnadeildin á Dalvík ákvað að gera ungum börnum hátt undir höfði. Heyrnin er mikilvæg en hún skerðist ef ekki er að gáð. Mikill hávaði, s.s. eins og á tónleikum, flugeldasýningum, á gamlárskvöld, viðvarandi hávaði heima fyrir, í verslunarmiðstöðvum og í umferðinni, geta skemmt heyrn ungra barna. Við erum almennt séð ekki nógu vakandi fyrir þessari hættu. Heyrnaskjól draga verulega úr hávaða og lítil eyrum þurfa á þeim að halda. Starfsmenn Heilsugæslunnar á Dalvík munu afhenda heyrnaskjólin fyrir hönd deildarinnar þegar barn kemur í 6 mánaða skoðun og það er von Slysavarnafélaga að foreldrar á Dalvík noti heyrnaskjólin þegar við á.