Þegar reykvískar konur voru fyrst kvaddar á fund Slysavarnafélags Íslands í byrjun árs 1930 til að ræða um það hvernig konur kæmu sterkast að starfi slysavarna átti sú skoðun fylgi að fagna að stofnuð yrði sérstök kvennadeild. Þótti sú leið líklegri til árangurs heldur en sú að þær gerðust félagar í almennum slysavarnasamtökum þó nokkrar konur hefðu þegar valið þann kostinn. Í tíðaranda þess tíma voru þær vissar um að betur væri eftir starfi þeirra tekið og frekar á þær hlustað, einnig að starf þeirra yrði markvissara í samvinnu við hvor aðra.
Sunnudaginn 28. apríl 1930 rúmum tveimur árum eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands er haldin stofnfundur sérstakrar kvennadeildar innan félagsins. Nafn deildarinnar var þá Kvennadeild Slysavarnafélags Íslands í Reykjavík. Orðrétt kemur fram í fyrstu reglugerð deildarinnar í 2. gr. Deildin er stofnuð í þeim tilgangi að vinna að því, að hjálp sé fyrir hendi, þá er sjóslys ber að höndum. Hún vill tryggja öryggi sjófarenda með auknum björgunartækjum og styðja að öllu því, sem verða má til þess að sporna við slysförum á sjó. Deildin er stofnuð með 100 konum. Allt til dagsins í dag hefur fjársöfnun verið helsta tekjulind deildarinnar. Á fyrstu árum hófst árleg hlutavelta um haustið og merkjasala að vori og héldust þessar árlegu fjáraflanir í tugi ára, ásamt hinum ýmsu öðrum á hverjum tíma. Það má með sanni segja að frumkvæði og framsýni hafi búið með stofnendum deildarinnar en strax í nóvember 1930 leggur Guðrún Jónasson formaður fram tillögu þess efnis að stuðlað verði að stofnun fleiri kvennadeilda. Í aðalfundargerð í janúar 1931 segir frá stofnun Hafnarfjarðardeildarinnar, því næst er stofnuð deild í Keflavík. Reykjavíkurdeildin beitti sér fyrir því að stofnaðar voru kvennadeildir víðsvegar um landið og voru þær orðnar 24 á jafnmörgum árum.
Markmið deildarinnar í upphafi miðaði að því að keypt yrði björgunarskúta sem væri á Faxaflóa aðallega til að líta til með fiskibátum á vertíðinni. Það tók átta ára þrautseigju og þrotlausa fjáröflun í formi spilakvölda, hlutaveltu, merkjasölu, dansleiki og gjafa frá velunnurum þangað til markmiðinu var náð. Þess má m.a. geta að árin 1932 og 1933 lánaði Eimskipafélag Íslands deildinni Skemmtiferðaskipið Gullfoss í skemmtisiglingu upp í Hvalfjörð og rann ágóðinn í sjóð deildarinnar. Björgunarskútan kom til Reykjavíkur 20 febrúar 1938 og hlaut nafnið Sæbjörg. Skipið kostaði alls um 130.000 kr. og höfðu þá vélar skipsins eru allar borgaðar og enn fremur 40% af verði skipsins sjálfs eða 85.600 en eftirstöðvar áttu að greiðast á næstu fjórum árum. Að auki skýrði frú Guðrún Jónasdóttir frá því í ræðu að deildin leggði til 25.000 kr. til reksturs björgunarskútunnar. Frá árinu 1941 lét deildin til sín taka og safnaði fé til byggingu 6 björgunarskýla víðsvegar um landið og kemur fram í fundargerðarbók frá 1947 að það ár hafi 50.000 kr. verið veitt í byggingu og endurbætur á björgunarskýlum. Á sama ári lagði kvennadeildin ein til radartæki í björgunarskipið Sæbjörg að upphæð kr. 70.000. Miðunarstöð lét deildin reisa á sinn kostnað árið 1954 og lagði einnig mikið fé til miðunarstöðvar á Garðskaga og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Á sömu árum lagði deildin fé til kaupa á sjúkraflugvél og þyrlu. Eins og sést á ofansögðu einkenndu varnir vegna sjóslysa starf deildarinnar fyrstu áratugina en eftir því sem leið undir seinni hluta 20 aldarinnar lét deildin til sín taka við forvarnir á öðrum sviðum einnig. Horft hefur verið til forvarna á heimilum, í skólum og í umferðinni.