Veglegir tónleikar undir yfirskriftinni “Stöndum þétt saman” með mörgum af okkar þekktustu listamönnum verða haldnir til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg í Eldborgarsal Hörpu miðvikudaginn 1. mars næstkomandi. Meðal þeirra sem þar koma fram eru Jón Jónsson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Stefán Hilmarsson, Eyþór Ingi, María Ólafsdóttir, Friðrik Dór, Jóhanna Guðrún, Haukur Heiðar og Ragnar Bjarnason. Húshljómsveitina skipa: Gunnar Leó Pálsson – trommur, Helgi Reynir Jónsson – gítar, Valdimar Kristjónsson – píanó, Baldur Kristjánsson – bassi og Þórður Gunnar Þorvaldsson – hljómborð og slagverk. Forseti Íslands flytur stutta tölu í upphafi tónleikanna og kynnir verður Eva Ruza.

Miðasala á tónleikana hefst miðvikudaginn 15. febrúar hjá tix.is og harpa.is.
Við skorum á fyrirtæki að hafa samband og skoða sérstaka styrktarpakka sem þeim stendur til boða.

Hugmyndin að tónleikunum vaknaði hjá skipuleggjanda þeirra sem langaði að leggja björgunarsveitunum lið en mikið álag hefur verið að sjálfboðaliðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á síðustu vikum og mánuðum. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa þurft að takast á við mörg umfangsmikil og flókin verkefni á sviði leitar og björgunar að undanförnu en starf björgunarsveitanna er fjármagnað með frjálsum framlögum og stuðningi einstaklinga og fyrirtækja.

Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína, þar með talið tónlistarfólk og tónistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Styrktaraðilar ; 365 miðlar og Harpa.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigurdís Sóley Lýðsdóttir, sími 775 8944.(sigurdis89@gmail.com) Andrés Magnússon, sími 844 7273.

Slysavarnadeildin Líf á Akranesi færði Akraneskaupsstað  fjórar milljónir króna að gjöf og er peningurinn eyrnamerktur í þeim tilgangi að koma upp hraðamælingarstaurum á sex stöðum í bæjarfélaginu. Tvær verða við akstursleiðir inn í bæinn, bæði á Innnesvegi og á Akranesvegi í grennd við tjaldsvæðið í Kalmansvík. Þá verða settir upp tveir hraðamælingarstaurar við hvorn grunnskólanna í bæjarfélaginu. Munu þeir senda ökumönnum viðeigandi skilaboð um aksturshraða, ýmist með brosandi kalli – eða með skeifu á vör.  Þá var Safnaðarheimilinu Vinaminni afhent hjartastuðtæki að gjöf og öðru slíku tæki verður nú komið fyrir í húsnæði deildarinnar í Jónsbúð. Loks var Björgunarfélagi Akraness færðar 500.000 krónur til stuðnings vegna nýja björgunarskips félagsins.

Bíllinn sem Slysavarnadeildin keypti fyrir rúmu ári síðan hefur svo sannarlega unnið fyrir sínu og nýst deildinni í mörgum verkefnum. Við ferðuðumst á  honum til Fáskrúðsfjarðar á Kvennaþing Landsbjargar, við nýttum hann á flugslysaæfingu þar sem við gáfum svöngum leikurum að borða, á Hátíð hafsins og á Menningarnótt og nú síðast við stóra leit á Reykjanesinu en þá keyrðum við birgðir á milli Hafnafjarðar, Grindavíkur og Reykjanesbæjar.  Björgnarsveitin Kjölur færði okkur Tetra stöð í bílinn og Orkuveitan gaf okkur þrjár handstöðvar þannig að við færumst alltaf nær því marki að verða fullbúin og klár í útköll.

Á aðalfundi í febrúar var kjörin ný stjórn og nýr formaður. Margrét Þóra Baldursdóttir sem haldið hefur á keflinu frá árinu 2014 baðst undan hlutverkinu eftir frábært starf á annasömum tímum hjá deildinni.  Við keflinu tekur Caroline Lefort en hún hefur setið í stjórn frá árinu 2012. Fyrst sem varaformaður og síðan gjaldkeri.  Lögum var breytt á aðalfundi og stjórnarmönnum fjölgað.  Undir takkanum verkefni má sjá ársskýrslu stjórnar frá sl. ári með svipmyndum frá árinu.  Einnig má geta þess að verið er að uppfæra heimasíðuna þessa dagana og von á frekari upplýsingum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík minnir á að endurskinsmerki geta skipt sköpum á dimmum vetrarmorgnum.  Okkur hættir til að passa upp á að börnin séu með endurskin og æða svo út í svartnættið snemma morguns dökk-klædd og ósýnileg í mesta umferðarþunga dagsins.  Sýnum börnum og unglingum gott fordæmi og setjum upp endurskinsmerki.Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fékk heimsókn frá Slysavarnadeildinni í Reykjavík og Björgunarsveitinni Kili sem gáfu þeim endurskinsmerki.

Þann 31. október sl. fór fram virkilega áhugaverð ráðstefna um slysavarnir á vegum Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar í Há­skól­an­um í Reykja­vík.  Fjöl­marg­ir fyr­ir­lestr­ar voru haldn­ir. Systurnar Anna Mar­grét og Lára Krist­ín Óskars­dæt­ur og lýstu því hvaða áhrif það hafði á líf þeirra, tveggja mennta­skóla­stúlkna, þegar móðir þeirra slasaðist illa í reiðhjóla­slysi árið 2010. Móðir þeirra hafði fyr­ir reglu að hjóla með hjálm en í þetta eina skipti þá sleppti hún hon­um, þar sem stutt var að fara. Af­leiðing­arn­ar urðu skelfi­leg­ar og um­turnuðu m.a. lífi systr­anna sem urðu að taka mikla ábyrgð á umönn­un móður sinn­ar eft­ir slysið. Þær sýndu mynd­ir og mynd­bönd frá lífi móður sinn­ar fyr­ir og eft­ir slysið.   Á eftir þeim ræddi Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir um notkagildi hjálma og kynnti rannsóknir um reiðjólaslys.

Þá tók við Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og ræddi eldvarnir á heimilum.  Svanfríður A. Lárusdóttir, Slysavarnadeildinni í Reykjavík kynnti framtíðarverkefni deilarinnar og Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur á Kirkjubæjarklaustri ræddi um viðbragðsaðilar og björgunarsveitir í dreifbýlinu.  Fjóla Guðjónsdóttir sérfræðingur frá Sjóvá greindi frá nýrri könnun og fór yfir hættur sem fylgja gífurlegri farsíma/snjallsímanotkun í umferðinni.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna steig næstur á stokk og rakti sögu um slysavarnir sjómanna og hvernig íslendingum hefur tekist að breyta algjörlegamenningu og hefðum hvað varðar notkun öryggistækja og annað tengt öryggismálum sjómanna.   Fulltrúar frá Slysavarnadeildinni á Akureyri kynntu verkefni sem þau hafa verið að vinna með félagsmiðstöðum á Akureyri og sýndu myndband sem unglingar á Akureyri hafa gert um nauðsyn endurskinsmerkja.

Þá tók við kynning og umfjöllun um slys á ferðamönnum og fór Jón­as Guðmunds­son, verk­efn­is­stjóri slysa­varna ferðamanna hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg, meðal ann­ars yfir nýja sam­an­tekt á töl­um yfir bana­slys ferðmanna hér á landi en þær sýna að þeim hef­ur fækkað mikið frá því um alda­mót­in, eða um 80%, sé fjöldi bana­slysa pr. 100.000 ferðamenn skoðaður.  Jónas ræddi einnig um innviði í ferðaþjónustu, dæmi um hvað mætti bæta og hvar félagar í slysavarnafélaginu Landbjörg geta beitt sér.  Eftir þetta tóku við fjörugar pallborðsumræður með þáttöku  Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra, Gunnars Vals Sveinssonar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Einari Pálssyni frá Vegagerðinni, Gunnari Geir Gunnarssyni frá Samgöngustofu og Jónasi Guðmundssyni frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Bekkurinn var þéttsetinn allan daginn og áhugi ráðstefnufólks leyndi sér ekki.

 

Neyðarkallinn 2015 er björgunarsveitamaður í bílaflokki.
Björgunarsveitarmenn í bílaflokki sjá til þess að ökutæki sveitanna séu alltaf í fullkomnu lagi og tilbúin til notkunar þegar útkall berst. Auk þess sjá meðlimir bílaflokks gjarnan um akstur þeirra til og frá vettvangi og á æfingum. Salan fer fram 5.-7. nóvember.

Takk fyrir að standa við bakið á okkur!

Slysavarnadeildin í Reykjavík tók þátt í að kynna Savetravel.is 27. júní sl. en sama dag héldu hópar af stað í Hálendisvakt björgunarsveita.  Okkar fólk stóð við Olís í Norðlingaholti spjallaði við bílstjóra og aðra ferðamenn um slysavarnir og gefa góð ferðaráð.  Björgunarsveitarfólk var með í för og stór og vígaleg fjórhjól.  Börnum vegfarenda var boðið að setjast á hjólin og fá af sér myndir og ekki er hægt að segja annað en ferðafólkið hafi tekið vel á móti okkar fólki og þeirra boðskap.

 

 

 

 

 

Þegar reykvískar konur voru fyrst kvaddar á fund Slysavarnafélags Íslands í byrjun árs 1930 til að ræða um það hvernig konur kæmu sterkast að starfi slysavarna átti sú skoðun fylgi að fagna að stofnuð yrði sérstök kvennadeild. Þótti sú leið líklegri til árangurs heldur en sú að þær gerðust félagar í almennum slysavarnasamtökum þó nokkrar konur hefðu þegar valið þann kostinn. Í tíðaranda þess tíma voru þær vissar um að betur væri eftir starfi þeirra tekið og frekar á þær hlustað, einnig að starf þeirra yrði markvissara í samvinnu við hvor aðra.
Sunnudaginn 28. apríl 1930 rúmum tveimur árum eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands er haldin stofnfundur sérstakrar kvennadeildar innan félagsins. Nafn deildarinnar var þá Kvennadeild Slysavarnafélags Íslands í Reykjavík.  Orðrétt kemur fram í fyrstu reglugerð deildarinnar í 2. gr. Deildin er stofnuð í þeim tilgangi að vinna að því, að hjálp sé fyrir hendi, þá er sjóslys ber að höndum. Hún vill tryggja öryggi sjófarenda með auknum björgunartækjum og styðja að öllu því, sem verða má til þess að sporna við slysförum á sjó.  Deildin er stofnuð með 100 konum. Allt til dagsins í dag hefur fjársöfnun verið helsta tekjulind deildarinnar. Á fyrstu árum hófst árleg hlutavelta um haustið og merkjasala að vori og héldust þessar árlegu fjáraflanir í tugi ára, ásamt hinum ýmsu öðrum á hverjum tíma.  Það má með sanni segja að frumkvæði og framsýni hafi búið með stofnendum deildarinnar en strax í nóvember 1930 leggur Guðrún Jónasson formaður fram tillögu þess efnis að stuðlað verði að stofnun fleiri kvennadeilda.  Í aðalfundargerð í janúar 1931 segir frá stofnun Hafnarfjarðardeildarinnar, því næst er stofnuð deild í Keflavík. Reykjavíkurdeildin beitti sér fyrir því að stofnaðar voru kvennadeildir víðsvegar um landið og voru þær orðnar 24 á jafnmörgum árum.
Markmið deildarinnar í upphafi miðaði að því að keypt yrði björgunarskúta sem væri á Faxaflóa aðallega til að líta til með fiskibátum á vertíðinni. Það tók átta ára þrautseigju og þrotlausa fjáröflun í formi spilakvölda, hlutaveltu, merkjasölu, dansleiki og gjafa frá velunnurum þangað til markmiðinu var náð. Þess má m.a. geta að árin 1932 og 1933 lánaði Eimskipafélag Íslands deildinni Skemmtiferðaskipið Gullfoss í skemmtisiglingu upp í Hvalfjörð og rann ágóðinn í sjóð deildarinnar.  Björgunarskútan kom til Reykjavíkur 20 febrúar 1938 og hlaut nafnið Sæbjörg. Skipið kostaði alls um 130.000 kr. og höfðu þá vélar skipsins eru allar borgaðar og enn fremur 40% af verði skipsins sjálfs eða 85.600 en eftirstöðvar áttu að greiðast á næstu fjórum árum. Að auki skýrði frú Guðrún Jónasdóttir frá því í ræðu að deildin leggði til 25.000 kr. til reksturs björgunarskútunnar. Frá árinu 1941 lét deildin til sín taka og safnaði fé til byggingu 6 björgunarskýla víðsvegar um landið og kemur fram í fundargerðarbók frá 1947 að það ár hafi 50.000 kr. verið veitt í byggingu og endurbætur á björgunarskýlum. Á sama ári lagði kvennadeildin ein til radartæki í björgunarskipið Sæbjörg að upphæð kr. 70.000. Miðunarstöð lét deildin reisa á sinn kostnað árið 1954 og lagði einnig mikið fé til miðunarstöðvar á Garðskaga og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Á sömu árum lagði deildin fé til kaupa á sjúkraflugvél og þyrlu. Eins og sést á ofansögðu einkenndu varnir vegna sjóslysa starf deildarinnar fyrstu áratugina en eftir því sem leið undir seinni hluta 20 aldarinnar lét deildin til sín taka við forvarnir á öðrum sviðum einnig. Horft hefur verið til forvarna á heimilum, í skólum og í umferðinni.

Á kvennaþingi á Patreksfirði í október 2014 hlýddu 145 konur frá 13 deildum á fyrirlestra um slysavarnamál og fjölluðu um þau árlegu verkefni sem Landsbjörg heldur utan um og deildirnar vinna að.  Í kjölfar þingsins hittust nokkrar konur úr fimm deildum á suðurlandi og vildu deila umræðunni með félögum sem ekki höfðu átt tök á því að vera með á Patreksfirði.  Þann 15. nóvember var haldinn vinnustofa eða svokölluð Slysavarnasmiðja í Gróubúð og höfðu félagar úr Slysavarnadeildinni í Reykjavík umsjón með framkvæmdinni.  Smiðjan var þó samstarfsverkefni deildanna og áttu þær allar fulltrúa í undirbúningsnefnd.  Þennan dag komu saman á um fimmta tug félaga úr sex deildum á suðvesturhorni landsins og frá Patreksfirði.  Um morgunin voru flutt stutt erindi um málefni dagsins og svo var skipt í hópa sem unnu eftir fyrirframákveðnu ferli og skiluðu niðurstöðum í lok dagsins.  Mikill fjöldi góðra hugmynda var settur á blað en hóparnir fjölluðu um verkefni sem snúa að börnum og heimilinu. Verkefninu Glöggt er gests augað, umferðarverkefni og ferðamennsku eða Save Travel.  Eftirtaldar deildir áttu fulltrúa á Slysavarnarsmiðju: SVD Dagbjörg í Reykjanesbæ, SVD Una í Garði, SVD Varðan á Seltjarnarnesi, SVD í Reykjavík, SVD Líf á Akranesi og SVD Unnur á Patreksfirði.  Smiðjunni stýrði Svanfríður A. Lárusdóttir. Hópstjórar og frummælendur voru Petrea Jónsdóttir, Hildur Sigfúsdóttir, Kristbjörg og Sólbjörg Gunnbjörnsdætur  og Fríður Birna Stefánsdóttir.  Aðrir ræðumenn dagsins voru Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá SL, Anna Kristjánsdóttir, Sólrún Ólafsdóttir og Hallfríður Jóna Jónsdóttir.  Niðurstöður hópa voru sendar formönnum allra slysavarnadeilda á landinu og eru þannig uppsettar að auðvelt er að nýta sér hugmyndirnar og leita frekari upplýsinga þar sem hópstjóri hvers verkefnis er skráður.

Góð umræða skapaðist um hugmyndir tengdar starfinu sem féllu ekki í þá fjóra málaflokka sem fjallað var um og eiga þær allar sameiginlegt að félagarnir kalla á aukið samstarf milli deilda. Má þar nefna verkefni á landsvísu unnið á sama tíma sem fangar athygli fjölmiðla, sameiginlegt kynningarátak og samræmd kynningargögn. Að efla markvisst samstarf og heimsóknir milli deilda, nýtt fjáröflunarverkefni á landsvísu eyrnamerkt slysavarnadeildum og margt fleira.  Í framhaldi af smiðjunni hefur hópurinn sem stóð að verkefninu haldið umræðum um framtíðarsýn  áfram og heldur úti síðu á fésbókinni þar sem smám saman hafa bæst í hópinn stjórnarmenn úr deildum víðsvegar um landið ásamt öðru góðu fólki sem lætur sig slysavarnamál og framtíð deildanna varða. Það er einlæg von okkar að með þessum samræðum og aukinni samvinnu getum við gert gott starf betra og hvatt allar deildir til umhugsunar um framtíðina, stöðu slysavarnadeilda og slysavarnaverkefna sem unnin eru heima í héraði og á landsvísu.  Að lokum má geta þess að smiðjuhópurinn hefur átt í góðu samstarfi við stjórn og skrifstofu SL og býður þeim deildum sem það vilja heimsókn.  Smiðja þarf ekki endilega að vera um slysavarnamál, hún getur fjallað um deildirnar sjálfar, innra skipulag, kynningamál, fjáraflannir eða hvað sem er og raunverulega þarf ekki fleiri en 12 – 14 þátttakendur til að góður árangur náist.