Þann 28. apríl 1930 stóðu 100 konur að því að stofna Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík.   Deildin var fyrsta kvennadeildin undir þá tiltölulega nýstofnuðu Slysavarnarfélagi Íslands. 

  Reykjavíkurdeildin, sem í dag fagnar  90 ára afmæli, var stofnuð fyrir tilstuðlan frú Guðrúnar Jónasson en hún var jafnframt fyrsti formaður deildarinnar.   Á stofnfundinum sagði frú Guðrún;  “Þar sem konur starfa í almennum félagsskap eru þær oft óþarflega hlédrægar, en þegar þær bera alla ábyrgð sjálfar, verður árangurinn tvímælalaust bestur. Þá leggja þær hiklaust fram krafta sína og stuðla að því allar í sameiningu að þoka áfram þeim málum sem þær hafa tekið upp á arma sína.”   

 Stofnendur slysavarnadeilda  um landið, eiginkonur, mæður og dætur sjómanna unnu þrotlaust að því að tryggja öryggi sinna manna.  Ótrúlegur árangur hefur náðst á sl. 90 hvað varðar öryggi sjófarenda.  
Frumkvöðlarnir í slysavarnarstarfi á Íslandi  mundu svo sannarlega gleðjast yfir þeirri staðreynd að enginn hefur
farist á sjó undanfarin þrjú ár.

Margt hefur breyst á 90 árum, fyrstu áratugir í starfi deildarinnar  snerust fyrst og fremst að öryggi sjómanna  eins og áður sagði.   Með breyttum tímum hafa slysavarnir beinst í aðrar áttir, svo sem að öryggi barna, eldri borgara, ferðamanna  og í umferðinni.   Þar að auki hafa flestar fjáraflanir deildarinnar snúið að því að styðja við starfsemi og þá fyrst og fremst tækjakaup björgunarsveita.   

Nítíu ár er langur tími í starfi frjálsra félagasamtaka. Nauðsynlegt er að félög endurnýji sig og aðlagist breyttum tímum.   Þá hefur líka orðið sú breyting á konum að þær eru ekki eins hlédrægar og þær voru í félagsskap karla árið 1930.  Því þótti ástæða til þess að opna starf slysavarnadeilda fyrir öllum.

  Í dag störfum við undir nafni Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík (SVDR).  Allir sem hafa áhuga á því að leggja sitt af mörkum til öruggara umhverfis eru velkomnir til starfa í Slysavarnardeildinni í Reykjavík.


Níutíu árunum er fagnað á skrítnum tímum þar sem ósýnilegur óvinur herjar á samfélagið og því munum við eins og allir aðrir þurfa að slá veisluhöldum á frest.  Engu að síður langar okkur að hvetja allan almenning til að horfa í kringum sig á gönguferðum sínum,  í tveggja metra fjarlægð og senda okkur ábendingar um slysagildrur í nærumhverfinu .  Því rétt eins og við erum öll sóttvarnir getum viðöll verið slysavarnir. 

Með hækkandi sól ætlar SVDR að standa fyrir skipulögðum gönguferðum um hverfi  borgarinnar með tilliti til þess sem má laga, til að  gera umhverfi okkar öruggara. Ábendingar um staði sem vert er að skoða má senda deildinni á netfangið slysavarnadeild@slysavarnadeild.is


Við þökkum öðrum slysavarnadeildum og björgunarsveitum samstarfið undanfarin 90 ár og hlökkum til áframhaldandi samstarfs því þó árangri
hafi verið náð á ýmsum sviðum mætum við sífellt nýjum áskorunum.   

Síðast en ekki síst viljum við þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa stutt við deildina frá upphafi. 

Eftir Eddu Guðmundsdóttur formann SVDR

Birt í Morgunblaðinu 28.4.2020 

Þann 28.apríl 1930 tóku 100 konur sig til og stofnuðu Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík.   Það eru því í dag nákvæmlega 90 ár frá stofnun deildarinnar.   Á heimasíðu deildarinnar má finna skemmtilegan fróðleik um starfið í deildinni frá upphafi. .  Vegna ástandsins og hamlana á samkomum verða því miður engin hátíðarhöld í kringum Sjómannadaginn en veitingasala þá helgi hefur verið stærsta fjáröflun deildarinnar.      

Við munum fagna þessum merka áfanga  í sögu deildarinnar þó síðar verði á árinu og hvetjum við félaga og almenning allan til að fylgjast með verkefni sem hleypt verður af stokkunum á næstu vikum.  Verkefnið snýr að öryggi í nærumhverfi okkar.  Við hvetjum alla til að horfa með gagnrýnum augum á umhverfi sitt og senda okkur ábendingar um það sem betur mætti fara.  

Félagar SVDR taka vel á móti öllum sem vilja kynna sér og taka þátt í starfi deildarinnar og bendum við áhugasömum að hafa samband.   Félagsmenn horfa stoltir til fortíðar og hlakka til að takast á við verkefni framtíðar markmið og tilgangur SVDR er fyrst og fremst að koma í veg fyrir slysin en við höldum jafnframt að veita félögum okkur í björgunarsveitum stuðning þega á þarf að halda.   

Stjórn SVDR

Kæru félagar í mars 2020 er margt að gerast.

Fyrsta fjáröflun starfsársins hið margrómaða bingó verður næstkomandi laugardag þann 7.mars kl. 14.00 í Vinabæ Skipholti.  Við hvetjum ykkur til að taka þátt í undirbúningi eða mæta með vini og ættingja og leggja þannig ykkar að mörkum. Einnig má bjóða í viðburðinn á facebook.

Þar sem deildin okkar verður 90 ára á árinu langaði okkur að gera eitthvað skemmtilegt samvinnuverkefni sem við gætum svo gefið deildinni í framhaldinu og er stefnan sett á afmælisfund í lok apríl.

Eftir heimsókn og ráðleggingar frá sunnlenskum hannyrðakonum var ákveðið að leggja í krosssaums bútaverk eða refil.

Vinnan við refilinn var kynnt á félagsfundi og á aðalfundi í febrúar og eru u.þ.b.10 konur byrjaðar að sauma. Enn eru þó til nokkrar uppskriftir og gott tækifæri fyrir fleiri að vera með. Ætlunin er að verkinu ljúki fyrir páska. Við hvetjum því alla sem langar til að vera með að hafa samband sem fyrst við stjórn.

 Saumahittingur verður alla þriðjudaga í mars  í Gróubúð kl.18:30

  Félagsfundur verður þann 19.mars  þar sem við fáum góðan gest og kynnum verkefnin á komandi starfsári.

  Í lok mars  verður svo boðið uppá námskeið.

 Inn á dagatalinu sem fylgir hér með eru viðburðir deildarinnar þar sem við væntum þess að allir félagar geti litið við en jafnframt eru stjórnarfundir inná dagatalinu ykkur til upplýsingar ef það eru einhver mál sem þið viljið leggja fyrir  stjórn.

SunnudagurMánudagurÞriðjudagurMiðvikudagurFimmtudagurFöstudagurLaugardagur
1234567
  StjórnarfundurSaumahittingur kl 18:30   Bingó Vinabæ kl 14.00
891011121314
  Saumahittingur kl 18:30     
15161718192021
  StjórnarfundurSaumahittingur kl 18.30  Félagsfundur kl 20.00  
22232425262728
  Saumahittingur kl 18:30     
293031    
  Saumahittingur kl 18:30     
      

Ein af stærri fjáröflunum deildarinnar

Þann 7. mars nk. verður hið árlega bingó Slysavarnadeildarinnar haldið í Vinabæ Skipholti 33.

Húsið opnar kl:13:00 og bingóið hefst kl:14:00

Eitt spjald kr.1000

Tvö spjöld kr.1500

Þrjú spjöld kr.2000

Veglegir vinningar að vanda

Allir velkomnir

Gróubúð 16. janúar kl.20

Einar Örn Jónsson kemur frá Slökkviliðinu í Reykjavík og fer yfir eldvarnir.

Stjórnarmenn munu kynna dagskrána framundan.

Lesið verður uppúr sögu deildarinnar.

Allir velkomnir.

Stjórnin

 

Opinn fundur í Gróubúð, Grandagarði 1, 12. September 2019 kl.20

Viltu gefa af þér og vera partur af skemmtilegum hópi slysavarnafélaga?

Á haustin bjóðum við nýja félaga til liðs við okkur til að sinna fjölbreyttum verkefnum. Slysavarnir, fjáröflun og aðstoð við björgunarverkefni.

Við bjóðum félögum okkar námskeið og eflum andann með ferðalögum og skemmtilegri samveru.

Ef þú átt nokkra tíma á mánuði lausa til að sinna gefandi sjálfboðastörfum, komdu þá og hittu okkur á opnum fundi þann 12. september kl. 20 í björgunarmiðstöðinni okkar í Gróubúð, Grandagarði 1.

Kaffi og meðlæti í boði

Eins og undanfarin ár mun Slysavarnadeildin í Reykjavík standa fyrir kaffihlaðborði og vöfflusölu á Sjómannadaginn 2. júní kl. 13-17 í hátíðartjaldi við Grandagarð.

Kaffisalan er ein stærsta fjáröflun ársins hjá deildinni og hefur ágóði af sölunni runnið til margra góðra verkefna á undanförnum árum.

Í ár hefur deildin ákveðið að ágóðinn af kaffihlaðborðinu muni renna til kaupa á nýjum börgunarbáti á Reykjavíkursvæðið.

Það er von okkar að það safnist 
rausnarlega uppí nýjan bát í tengslum við Hátið Hafsins.

Rétt er að benda á að í ár mun verða örlítið breytt fyrirkomulag á kaffihlaðborðinu við verðum ekki í húsnæði okkar í Gróubúð á Grandagarði heldur verðum við í Hátíðartjaldi utar á Grandagarði.

Grillaðar pylsur og Candy-flos við Sjóbúð á laugardag og sunnudag.

Hlökkum til að sjá ykkur

Á sunnudaginn 7. apríl næstkomandi verður deildin með eina af sínum stærri og vinsælli fjáröflunum.

Bingó!

Að þessu sinni verðum við í Vinabæ, Skipholti 33.
Húsið opnar kl.13:30 og hefst dagskrá kl.14:00

Að venju verða bingóspjöldin á vægu verði en vinningarnir veglegir og hafa fjöldamörg fyrirtæki lagt okkur lið og gefið vörur og þjónustu.

Eitt spjald 1000 kr.
Tvö spjöld 1500 kr.
Þrjú spjöld 2000 kr.

Léttar veitingar á vægu verði.

Félagar í slysavarnadeildum eru fólk á öllum aldri af báðum kynjum sem tekur samfélagslega ábyrgð.  Fólk sem vill leggja hönd á plóg með Slysavarnafélaginu Landsbjörg en kýs að leggja áherslu á slysavarnir og forvarnastarf í samstarfi við björgunarsveitir.  Meginmarkmið slysavarnadeilda um land allt er að koma í veg fyrir slys og óhöpp ásamt því  að vera í góðu samstarfi við björgunarsveitina í sínu sveitarfélagi, m.a. við fjáraflanir eða vegna útkalla og annarra aðgerða.  Öryggi á heimilum svo sem eldvarnir og slys á börnum og öldruðum, endurskinsmerki/vesti í leikskóla og grunnskóla, hjálmanotkun, notkun öryggisbelta og barnabílstóla, öryggi leiktækja á almenningssvæðum og svo mætti lengi áfram telja.  Hver slysavarnadeild starfar sjálfstætt og eru verkefni deildanna oft ólík þar sem þörfin er mismunandi eftir byggðarlögum.

Slysavarnadeildin í Reykjavík er mikilvægur hluti af neti sjálfboðaliða sem sinna björgunarstörfum og slysavörnum á Íslandi. Félagatal deildarinnar telur á sjöunda tug sjálfboðaliða sem gefa mismikið af tíma sínum til starfsins. Einhverjir félagar taka þátt í nær öllum verkefnum deildarinnar, aðrir velja sér verkefni eftir aðstæðum og áhuga á meðan sumir kjósa að halda sér til hlés og styrkja starfið með félagsgjaldi eða styrk.  Félagar eru frá aldrinum 12 ára og upp úr og af báðum kynjum.  Deildin tekur þátt í landsverkefnum á borð við heimsóknir í leikskóla, Reiðhjóla- og hjálmaskoðun í grunnskólum á vorin, heimsóknum til heldri borgara. Einnig erum við öflug í að afla fjár, höldum námskeið fyrir félaga okkar og vinnum með  björgunarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu.

Sendu okkur póst og við höfum samband.

 

Slysavarnafélagið Landsbjörg og félagseiningar þess hafa í mörg ár stuðlað að aukinni notkun almennings á endurskinsmerkjum, meðal annars með því að gefa endurskinsmerki.  Með notkun endurskinsmerkja er hinn almenni vegfarandi að auka öryggi sitt til muna,  hann sést fimm sinnum fyrr þegar hann lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskin. Best er að velja fatnað sem er með endurskini á. Ef endurskin er ekki til staðar á fatnaðinum þarf að hafa laus endurskinsmerki á sér. Endurskinsmerkin þurfa að vera þannig  staðsett að ljósgeisli frá bíl falli á þau hvort sem bíllinn kemur á móti eða aftan að vegfaranda.

Staðsetning endurskinsmerkja

Endurskinsmerki þurfa að vera neðarlega og sjást frá öllum hliðum. Hangandi endurskinsmerki er best að setja fyrir neðan mitti, eitt á hvora hlið. Allar skólatöskur/bakpokar eiga að vera með endurskinsmerki.
Á barnavögnum er best að hafa endurskin á öllum hliðum.

Framleiðandi

Glimmis endurskinsmerkin sem slysavarnadeildir og björgunarsveitir eru að gefa/selja eru framleidd af fyrirtækinu Popomax. Glimmis endurskinsmerkin eru öryggisbúnaður framleiddur í Svíþjóð og á ekki að nota sem leikfang. Endurskinsmerkin frá Glimmis uppfylla staðla um persónuleg endurskinsmerki (EN 13356, SP-ID-númer 04022, vottunarnúmer 424601) og eru CE-vottuð.

Ef endurskinsmerkið rispast, skemmist eða verður óhreint, dregur úr endurskinsgetunni. Strjúkið því reglulega af því með rökum klúti og skiptið út skemmdum merkjum.