Um okkur

Ágrip af sögu deildarinnar

Slysavarnadeildin í Reykjavík er deild innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Deildin er stofnuð 28. apríl 1930 og var upphaflega kvennadeild. Við stofnun var deildin fyrsta kvennadeild Slysavarnafélags Íslands, sem stofnað var 1928. Önnur kvennadeild var stofnuð í Hafnarfirði í desember sama ár. Í dag eru slysavarnadeildirnar 37 og vel flestar bjóða velkomna félaga af báðum kynjum þó konur séu enn í meirihluta.

Lengst af var deildin til húsa á Grandagarði, í húsi Slysavarnafélagsins. Í lok níunda áratugarins varð deildin að víkja úr því húsnæði fyrir Tilkynningaskyldunni sem þurfti stærra húsnæði. Slysavarnadeildin var þá á hrakhólum í nokkur ár en festi svo kaup á eigin húsnæði að Sóltúni 20, tæplega 150m2. Kaupsamningurinn var undirritaður þann 28. apríl 1993 á 63 ára afmælisdegi deildarinnar, húsnæðið fékk nafnið Höllubúð og var vígt 9. október 1993.  Höllubúð hét eftir Höllu Jónsdóttir sem lést þann 8. maí 1993. Halla gekk snemma til liðs við deildina, hún stundaði alla algenga vinnu í húsmennsku og lagði allt sem aflögu var fyrir og árið 1954 gerði hún erfðaskrá þar sem hún ánafnaði Slysavarnadeildinni allt sitt, trú þeirri hugsjón að láta gott af sér leiða.

Ástæðan fyrir því að stofnuð var kvennadeild árið 1930 en konur gengu ekki beint inn í félagið var mest fyrir orð frú Guðrúnar Jónasson, sem kosinn var fyrsti formaður deildarinnar, “Þar sem konur starfa í almennum félagsskap eru þær oft óþarflega hlédrægar, en þegar þær bera alla ábyrgð sjálfar, verður árangurinn tvímælalaust bestur. Þá leggja þær hiklaust fram krafta sína og stuðla að því allar í sameiningu að þoka áfram þeim málum sem þær hafa tekið upp á arma sína.”

Frú Guðrún Jónasson var formaður fyrstu 28 árin. Forseti Íslands, Hr. Ásgeir Ásgeirsson, sæmdi hana stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og sagði við það tilefni að ekki væri venja að veita slíka viðurkenningu fyrir störf í einstökum félagsskap, en orðunefnd hefði fundist rétt að gera hér undantekningu. “Má segja að allar slysavarnakonur beri þetta merki með Guðrúnu Jónasson”.

Gróa Pétursdóttir, sem tók við formennskunni af Guðrúnu hlaut íslensku fálkaorðuna. Árið 1972 sæmdi Slysavarnafélag Íslands Gróu æðstu viðurkenningu sinni, heiðurskrossi, en einungis þremur hlotnaðist sá heiður í sögu félagsins. Gróubúð, aðstaða Björgunarsveitarinnar Ársæls á Grandagarði, heitir eftir Gróu Pétursdóttur. Einnig ber nýlegur björgunarbátur sveitarinnar nafn Gróu.

Árið 2010 var ráðist í stækkun á Gróubúð og þá seldi Slysavarnadeildin húsnæði sitt að Sóltúni 20 og keypti 20% hlut í Gróubúð. Starf deildarinnar fer þar að mestu fram í góðu samstarfi við Ársælsfólk enda teljum við það okkar hlutverk að styðja við starf sveitarinnar á þann hátt sem við getum.Dæmi um verkefni deildarinnar í gegnum árin:

  • Sæbjörg – björgunarskúta sem Slysavarnafélagið lét smíða til að líta eftir fiskibátum við Faxaflóa á vertíðum og kom til landsins 1938
  • Ratsjártæki er Sæbjörg var endurbyggð 1945. Sæbjörg var með fyrstu íslensku skipunum sem fékk slíkt tæki
  • Bygging skipbrotsmannaskýra, deildin lét sjálf reisa 6 myndaleg skýli og útbjó þau nauðsynlegum útbúnaði og styrkti uppbyggingu skýla við ströndina í Skaftafellssýslu og víðar.
  • Radíómiðunarstöðvar voru teknar í notkun á nokkrum stöðum á landinu um miðja 20 öldina. Deildin lét koma upp stöð á Krikjubæjarklaustri til að geta miðað út
    strönduð skip og lagði fé í miðunarstöðvar á Garðskaga og í Vestmannaeyjum.
  • Þyrla kom hingað til reynslu árið 1949. Deildin sýndi frumkvæði og lagði fram söfnunarfé sem notað var til kaupa á fyrstu björgunarþyrlu landsins árið 1965
  • Fluglínubjörgunartæki, hið fyrsta sem Færeyjingar eignuðust árið 1957 gaf kvennadeildin í Reykjavík í þakklætisskyni fyrir vasklega framgöngu færeyskra sjómanna við börgun áhafnarinnar af togaranum Goðanesi sem þá hafði nýlega stranda við Færeyjar.
  • Gróubúð – deildin lagði fram verulega fjármuni til byggingar björgunarmiðstöðvar á Grandagarði, Gróubúð, sem var tekin í notkun árið 1974
  • Vörn fyrir börn – átak sem kvennadeildin tók þátt í á 10 áratug síðustu aldar, m.a. með því að láta gera töflur með sýnishornum af öryggisvörum fyrir börn sem settar
    voru upp í öllum heilsugæslustöðvum borgarinnar.
  • Björgunarsveitin Ársæll (sameinuð úr Björgunarsveitinni Ingólfi, Reykjavík og Björgunarsveitinni Albert, Seltjarnarnesi) með ýmsu móti. Síðustu árin má nefna, ullarfatnað í björgunarbáta, sæti í bifreið til að flytja sveitir (áður sátu þeir á gólfinu), veglegt framlag til björgunarbátsins Gróu Pétursdóttur. Í ár, framlag til smíða á sérútbúinni köfunarkerru fyrir köfunarflokk til að stytta útkallstíma þeirra.
  • Einnig minni styrkir til annarra björgunarsveita s.s. Kjalar á Kjalarnesi. Styrktum einnig í samráði við þá merkingar gönguleiða á Esjuna sem var sett upp í byrjun júní í ár.
    Slysavarnadeildin Hjálp vegna viðhalds skýlis í Látravík á Ströndum o.fl.

Formenn Slysavarnadeildarinnar

Frú Guðrún Jónasson formaður 1930 – 1958

Guðrún Jónasson fæddist 8. febrúar árið 1877 á Felli í Biskaupstungum, dóttir Péturs Einarssonar og seinni konu hans Höllu Magnúsdóttur, kaupmanns og alþingismanns Jónssonar frá Bráðræði í Reykjavík. Pétur og Halla ráku stórbú á Felli og þar var mikill gestagangur.

Guðrún fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum 1888, þá 11 ára gömul. Hún hóf fyrst afskipti af félagsstörfum í Fort Rouge við Winnipeg og tók mikinn þátt í hjálparstafi fyrir efnalitla Íslendinga þar. Guðrún giftist 1898 Jónasi Jónassyni kaupmanni og leikhúseiganda í Winnipeg. Þau hjón voru barnlaus, en ólu upp systurdóttir Guðrúnar sem andaðist um tvítugsaldur.

Guðrún kom aftur hingað til lands ásamt föður sínum 1904, og settist þá að í Reykjavík.Eftir heimkomuna stofnsetti hún verslun með tóbaksvörur og sælgæti og rak hana í eigin nafni um áratugi. Heimsótti hún mann sinn til Winnipeg m.a. sumarlangt árið 1914.
Hún rak einnig í félagi við Gunnþórunni Halldórsdóttir leikkonu, verslun með vefnaðarvörur, postulín og silki. Þær héldu heimili saman og ráku um skeið búskap á Nesjum í Þingvallasveit og höfðu ráðsmann fyrir búinu. Þær ólu upp þrjú fósturbörn.

Guðrún lét mikið að sér kveða í félagsmálum og var mjög hreinskiptin í skoðunum sínum og heiðarleg og allir vissu hvar þeir höfðu hana.
Á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands 3. febrúar 1911 var Guðrún kosin formaður Kvenréttindafélags Íslands og hafði þar betur gegn Bríeti Bjarnhéðinsdóttur þó ung væri, en 20 ár voru á milli þeirra og líkaði ekki öllum vel.
Guðrún kom við sögu byggingar Hallveigastaða og var fyrsti formaður fjáröflunarnefndar hússins. Þegar hér var komið við sögu var hún í framkvæmdanefnd Stórstúku Íslands, en bindindismál voru henni afar hugleikin.
Hún var einn af stofnendum Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar og formaður þess um árabil

Guðrún sat i Bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkunn frá 1928-1954. Hún sat 445 bæjarstjórnarfundi en aðeins einn maður sat fleiri fundi. Hún átti sæti í fátækra- og framfærslunefnd, veganefnd, vatnsnefnd, heilbrigðisnefnd, sóttvarnanefnd, veitingamálanefnd og auk þess átti hún sæti í forstöðunefnd Húsmæðraskóla Reykjavíkur.

Árið 1930 komu framámenn í Slysavarnafélagi Íslands, sem stofnað hafði verði 1928, að máli við frú Guðrúnu Jónasson og konur í Kvennréttindafélagi Íslands og óskuðu eftir aðstoð kvennanna við söfnun fjár og félaginu til stuðnings. Konur tóku vel í þessa ósk, en mjög geigvænleg sjóslys höfðu orðið í áranna rás og litla aðstoð sem hægt var að veita.  Við stofnun Kvennadeildar Slysavarnafélagsins þann 28. apríl 1930 var Guðrún Jónasson kjörin formaður. 100 konur skráðu sig sem stofnfélaga.

Deildin starfaði með Slysavarnafélagi Íslands en var með eigin fjárhag og réð sjálf sínu skipulagi. Ársgjald var ákveðið 1 króna fyrir börn yngri en 14 ára, 3 krónur fyrir fullorðna en æfifélagar greiði 50 krónur.
Strax var hafið mikið starf innann deildarinnar og stóð frú Guðrún Jónasson eins og klettur úr hafi og stjórnaði öllu með festu og myndugleik.

Hlutavelta, merkjasala, handavinnubasar, kaffisala á Sjómannadaginn og vandaðir fundir með skemmtidagskrá, já það var mikið starfað, allir fundir vel sóttir, skipbrotsmanna-skýli reist og séð um útbúnað í þau, séð um ullarfatnað til skipshafna. Einnig var greidd stórfjáhæð á ári til S.V.F.Í.
Til fjáröflunar fengu Slysavarnakonur sem dæmi tvisvar Gullfoss, flaggskip íslensku þjóðarinnar til að sigla, annað skiptið upp í Hvalfjörð og seinna upp í Kollafjörð og um sundin. Þær seldu aðgang í ferðirnar og fengu dágóðan pening út úr því. Í viðtali við Frú Guðrúnu Jónasson sjötuga, árið 1947 segir hún að konur hafi verið orðnar 1500 í kvennadeildinni.

Frú Guðrún Jónasson var formaður Kvennadeildar Slysavarnafélags Íslands frá 1930 í apríl og til dánardægurs í október 1958.

Guðrún var hávaxin, frekar stórleit, hafði fallegt bros og hlý glettin dökk augu. Mikil myndarkona, vel gefin og góðsöm. Það var tekið eftir henni þar sem hún fór og hlustað á það sem hún sagði. Þessi stór merkilega kona vildi víða láta til sín taka, velferð barna og ungmenna voru henni hugleikin svo og allt sem mátti betur fara.
Í raun og veru er það með ólíkindum hvað þessi kona kom miklu í framkvæmd og hvað hún hafði mikla yfirsýn. Hún var í bæjarstjórn í 24 ár, rak bújörð til margra ára, var formaður rveggja stærstu kvennasamtaka Íslands, Kvennadeildar S.V.F.Í í 28 ár og Hvöt kvennfélag Sjálfstæðisfélagsin í 17 ár.

Gróa Pétursdóttir formaður 1958 – 1973

Gróa Pétursdóttir fæddist þann 9. ágúst 1892 í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd. Foreldrar hennar voru Pétur Örnólfsson, sjómaður í Reykjavík og kona hans Oddbjörg Jónsdóttir.

Árið 1918 giftist Gróa Nikulási K Jónssyni skipstjóra og viktarmanni í Reykjavík um langt skeið og hófu þau búskap í Reykjavík. Gróa átti þrjú systkyni sem voru Jóhann, þekktur togaraskipstjóri, Guðlaug sem fylgdi Gróu alla tíð og sá lengst af um heimili Gróu og var henni ómetanleg hjálparhella. Yngst var svo Emilía sem var gift Kristni Markússyni í Geysi.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau hjón að Bergstaðastíg 54 en 1926 byggðu þau sér glæsilegt einbýlishús að Öldugötu 24 og þar áttu þau glæsilegt heimili alla tíð.
Gróa og Nikulás eignuðust þrjá syni, Pétur Ó stórkaupmann, Jón skipstjóra og Örnólf, auk þess ólu þau upp bróðirdóttir Nikulásar, Þóru Ólafsdóttir bankastarfsmann.

Gróa var mikil félagsvera, hún starfaði mikið í Sjálfstæðiskvennafélaginu Hvöt, Lestrarfélagi kvenna og Reykjavíkurfélaginu. En það félag sem hún starfaði lengst og mest fyrir var Slysavarnafélag Íslands og svo Kvennadeild S.V.F.Í. til dauðadags.
Gróa var í meðallagi há ung stúlka með ljósskoleitt hár en orðin alveg gráhærð á seinni hluta ævinar með gráblá skýr og hlý augu, alltaf glaðleg og hress og stutt í brosið. Ósérhlífin og dugleg og framkvæmdi hlutina. Hún lét sér annt um sínar konur og fór og heimsótti þær ef þær fóru á sjúkrahús. Hún vildi gera gott úr öllu.
Frá barnæsku hafði hún náin kynni af hinni hörðu lífsbaráttu íslenskara sjómanna og þeim hættum er þeir urðu að bjóða byrginn til að færa björg í bú og sjá fjölskyldum sínum farborða, allt frá því að sjór var sóttur á árabátum frá hafnlausri strönd og til þess að Íslendingar eignuðust togara.

Í fyrstu veiðiferðinni sem maður hennar Nikulás fór í sem skipstjóri, lenti hann í Halaveðrinu svonefnda en það var í febrúar 1925. Nærri má geta að fjölskyldum sjómanna hefur ekki verið rótt ofviðrisdagana 7. og 8. febrúar. Tveir togarar með allri áhöfn samtals 68 mönnum hurfu í hafið. Til þess tíma hafði það verið trú manna að togararnir væru það stór og sterk skip að þeir færust ekki á rúmsjó.Skip Nikulásar varð fyrir alvarlegum áföllum og komst við illan leik til hafnar.

Árið 1954 var Gróa kosin varafulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur og aðalfulltrúi 1958 og sat í borgarstjórn til 1966 að hún gaf ekki kost á sér í borgarstjórn. Aðal áhugamál hennar voru félags og uppeldismál svo og allt er varðaði velferð sjómanna. Vafalaust hafa atburðirnir á Halamiðunum haft mikil áhrif á Gróu og hennar mann, því þau urðu bæði stofnendur af S.V.F.Í þegar það var stofnað 1928.
Árið 1930 þegar Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík var stofnuð var Gróa meðal stofnenda ásamt mörgum sjómannskonum. Hún gerðist strax mikilvirkur félagi í starfi deildarinnar og vann henni alla tíð af óséplægni og dugnaði og er á engan hallað þó sagt sé að hún hafi öðrum fremur borið uppi starfsemina frá upphafi. Hún skipulagði fjársafnanir deildarinnar og stóð fyrir hlutaveltum, kaffi og merkjasölum. Og allt það fé sem deildin safnaði átti stærstan þátt í því að hægt væri að búa björgunarsveitir tækjum og búnaði og byggja fjölmörg björgunarskýli.

Árið 1939 var Gróa kosin í stjórn Kvd og var lengst af varaformaður eða til ársins 1959 er hún tók við af Guðrúnu Jónasson sem formaður og gengdi því starfi til dauðadags en hún lést 23 júní 1973. Gróa átti sæti í aðalstjórn S.V.F.Í frá 1958 og var varaforseti þess frá 1962.
Gróa stóð fyrir því að farnar voru kynnisferðir milli kvennadeilda víða um landið og var því vel fagnað og hefur verið farið vítt og breitt um landið og deildir heimsóttar.

Í formannstíð Gróu var meðal annars lögreglunni í Reykjavík gefinn gúmíbátur með utanborðsmótor, sem kom að góðum notum er leita þurfti í höfninni og við björgun á fólki sem féll í sjóinn.
Fyrir störf sín að félagsmálum og mannúðarmálum hlaut hún margskonar viðurkenningu, hún var sæmd Riddarakrossi Fálkaorðunar, einnig var hún eina konan sem hlotið hefur gullmerki sjómannasamtakanna og afrekskross S.V.F.Í.  Slysavarnalélagsmenn og konur eiga Gróu Pétursdóttir mikið að þakka.

Hulda Viktorsdóttir, f. 09-05-1926 d. 02-01-1985
Hulda var formaður deildarinnar 1973 – 1981

Guðrún S. Guðmundsdóttir, f. 16-09-1927
Guðrún var formaður deildarinnar á árunum 1981 – 1984

Gréta María Sigurðardóttir, f. 26-10-1941
Gréta María var formaður deildarinnar á árunum 1984 – 1988

Sigrún Kröyer, f. 30-03-1951 var formaður félagsins á árunum 1988 – 1990

Birna Björnsdóttir, f. 12-10-1942
Birna var formaður félagsins á árunum 1990 – 1993 og aftur 1998 – 2004

Ingibjörg B. Sveinsdóttir, f. 06-06-1947 d. 16-11-2006 var formaður félagsins á árunum 1993–1995

Fríður Birna Stefánsdóttir, f. 04-10-1960
Fríður Birna var formaður félagsins á árunum 1995-1996 og frá árinu 2006 – 2013

Laufey H. Finnsdóttir f. 22.10.1973 var formaður deildarinnar í nokkra mánuði eða frá aðalfundi í febrúar til október 2013.

Hrafnhildur Scheving, f. 03-07-1961 d. 24.07.2014
var formaður félagsins á árunum 1996 – 1998 og frá 2004 – 2006. Hún tók aftur við formennsku í október 2013 þar til hún féll frá í júlí 2014

Margrét Þóra Baldursdóttir
, f. 8.9.1954

Margrét Þóra var sett formaður í október 2014 eftir fráfall Hrafnhildar.   Hún sat sem formaður til ársloka 2016.

Caroline Lefort,  f. 07.08.1970

Caroline var formaður deildarinnar 2017-2019.

Edda G. Guðmundsdóttir, f. 12.12.1962

Edda tók við formennsku 2019.

Lög Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík

1. grein

Nafn deildarinnar er Slysavarnadeildin í Reykjavík og er hún félagseining innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar.  Aðsetur hennar og starfssvæði er á höfuðborgarsvæðinu.

2. grein

Tilgangur deildarinnar er að koma í veg fyrir slys og óhöpp með fræðslu og forvarnarstarfi, að afla fjár og vera í góðu samstarfi við björgunarsveitir.

3. grein

Deildin starfar samkvæmt lögum og siðareglum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.  Komi upp álitamál um að siðareglurnar hafi verið brotnar er málum vísað til siðanefndar félagsins.  Stjórn deildarinnar ber að lúta úrskurði siðanefndar.
Félagsaðild – réttindi og skyldur

4. grein

Félagi í deildinni getur hver sá orðið sem vill vinna að markmiðum deildarinnar og náð hefur 12 ára aldri.  Atkvæðisbær og kjörgengur er sá félagi sem náð hefur 18 ára aldri og er skuldlaus við deildina. Félagi undir 18 ára aldri hefur málfrelsi og tillögurétt.
Ákvörðun um árgjald skal tekin á aðalfundi.
Stjórn deildarinnar tekur ákvörðun um val á heiðusfélaga. Heiðursfélagi getur sá félagi orðið sem náð hefur 67 ára aldri.

5. grein

Aðalfundur fer með æðsta ákvörðunarvald félagsins.  Hann skal halda í febrúarmánuði ár hvert. Dagsetningu fundarins skal auglýsa á vefsíðu félagsins og með tölvupósti eigi síðar en 15. janúar. Til fundarins skal svo boða með sannanlegum hætti með minnst tveggja vikna fyrirvara.  Heimilt er að halda aðalfund rafrænt, þó með fyrirvara um að þess sé gætt að nota fjarfundabúnað sem býður uppá leynilega atkvæðagreiðlsu.
Reikningar deildarinnar skulu liggja fyrir viku fyrir aðalfund undirritaðir af stjórn og skoðunarmönnum.
Á nóvemberfundi skipar félagsfundur þriggja manna kjörnefnd. Nefndin skal lýsa eftir og vinna að því að framboð berist til kjörs stjórnar svo og félagslegra skoðunarmanna reikninga.
Framboðsfrestur rennur út viku fyrir félagsfund í janúar  og skulu frambjóðendur skila framboði sínu skriflega til kjörnefndar og tilgreina hvaða embætti þeir sækjast eftir.  Öll framboð til stjórnar skulu kynnt á félagsfundi í janúar og á miðlum deildarinnar.

Dagskrá aðalfundar er:

Skipan fundarstjóra og fundarritara
Lögmæti aðalfundar staðfest
Skýrslur nefnda og stjórnar
Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar
Lagabreytingar
Kjör stjórnar
Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald
Starfsáætlun kynnt
Önnur mál

Aðalfundur telst lögmætur sæki hann 15 félagsmenn hið fæsta.   Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum.

STJÓRN – skipulag og starfsemi

6. grein

Félagar kjósa árlega á aðalfundi til tveggja ára í senn, þ.e.a.s annað árið formann,ritara og meðstjórnanda, á heilli ártölu. Varaformann, gjaldkera, og 2 meðstjórnendur á oddatöluári.
Frambjóðendur til formanns skulu hafa setið í stjórn félagsins í minnst 2 ár og sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil í einu.
Stjórnin fer með umboð félagsins og ákvörðunarvald næst aðalfundi og  kemur fram fyrir hönd þess.

Formaður er oddviti stjórnar og stýrir fundum hennar.  Í samráði við stjórn ber hann ábyrgð á að starfsemi félagsins fari samkvæmt lögum. Forfallist formaður veitir hann varaformanni eða öðrum stjórnarmanni umboð til að sinna forystustörfum í fjarveru sinni.

Ritari sér um ritun fundargerða á stjórnarfundum.

Gjaldkeri er ábyrgur fyrir fjárreiðum félagsins.

Meðstjórnendur skipta með sér verkefnum eins og stjórn ákveður.

Stjórn skal á fyrsta fundi sínum setja skriflegar verklagsreglur til að vinna eftir.
Stjórnin skal halda minnst 12 stjórnarfundi á ári. Stjórn er ákvörðunarhæf þegar meirihluti stjórnar er viðstaddur. Við stjórnarákvarðanir ræður einfaldur meirihluti. Við jöfn atkvæði ræður atkvæði formanns.   Ritari stjórnar eða sá sem gegnir störfum ritar í forföllum hans, skal skrá fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum. Fundargerðir skulu sendar út eftir stjórnarfundi til allra stjórnarmanna.Að afloknum aðalfundi skal stjórn deildarinnar senda Slysavarnafélaginu Landsbjörg  skýrslu um helstu störf deildarinnar á síðasta starfsári svo og ársreikninga.

7. grein

Almennir fundir skulu haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði að vetrinum. Fundagerðarbækur og önnur verðmæt skjöl er varða störf og sögu deildarinnar skulu geymd í Gróubúð.
Fjármál

8. grein

Á aðalfundi skal ákveða árgjald með gjalddaga í janúar og eindaga í febrúar.  Félagsgjald miðast við 18 ára aldur. Heiðursfélagi greiðir ekki félagsgjöld.
Sjóði deildarinnar skal ávaxta í banka og/eða sparisjóði með sem hæstri ávöxtun án áhættu. Til að skuldbinda deildina þarf meirihlutaákvörðun stjórnar með undirskrift þeirra.
Félagsmönnum er ekki heimilt  að stofna til skuldar fyrir hönd deildarinnar. Styrki og aðrar fjárskuldbindingar umfram 500.000 þarf félagsfundur að samþykkja.

Lagabreytingar og félagsslit

9. grein

Deildin verður ekki lögð niður nema með samþykkt á aðalfundi sem hlotið hefur sömu meðferð og tillögur að lagabreytingum og þá með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.  Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg.  Gögn og eignir deildarinnar renna í slysavarnasjóð Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þó ekki fyrr en eitt ár er liðið frá aðalfundi.

10. grein

Lög þessi taka gildi er þau hafa verið samþykkt á aðalfundi og til að breyting nái fram að ganga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.  Lögunum má aðeins breyta á aðalfundi deildarinnar  en til að meðferð breytingatillagna sé lögmæt þarf að kynna þær á síðasta almennum deildarfundi fyrir aðalfund.

Samþykkt á aðalfundi 15.febrúar 2022

Dagskrá

Félagsfundir deildarinnar og aðrir viðburðir 2024

Slysavarnadeildin í Reykjavík heldur deildarfundi sýna þriðja fimmtudag í mánuði frá hausti og fram að sumri.  Við tökum fundafrí í Júní, Júlí og Ágúst.

Upplýsingar um frekari dagskrá má finna á fésbókarsíðu deildarinnar.